Leyndardómar súkkulaðisins frá OMNOM

Súkkulaði er eitt af undrum náttúrunnar sem gæla við bragðlaukana og gefa lífinu lit en súkkulaði er ekki bara súkkulaði. Sjöfn Þórðar lítur inn í súkkulaðigerðina Omnom sem staðsett er við Hólmaslóð 2 í Reykjavík í glæsilegum húsakynnum þar sem súkkulaði ævintýrin gerast. Þar hittir Sjöfn, Kjartan Gíslason matreiðslumann og meðstofnanda Omnom sem býður henni kynnisferð um súkkulaðigerðina þar sem leyndarmál súkkulaðisins eru geymd.

Omnom er eina súkkulaðigerðin á Íslandi sem sérhæfir sig í svokölluðu ,,baun í bita” súkkulaði og hafa Kjartan og félagar frá upphafi einungis notað hágæða kakóbaunir hvaðanæva að úr heiminum. „Það getur verið snúið verkefni að búa til ,,baun í bita” súkkulaði, hvað þá þegar áhersla er lögð á að afla upplýsinga um uppruna og aðstöðu kakóbænda.“ Baunirnar eru keyptar frá býlum, til að mynda í Madagaskar, Tansaníu og Níkargúa, þar sem Kjartan og félagar eru búnir að kynna sér starfsemina vel og skoða gæðin á kakóbaunum vel áður en viðskiptin fara fram. Það er gert til að tryggja að fagmennska sé viðhöfð og vel sé hugsað um starfsfólkið sem vinnur á ökrunum. „Frá plantekrunum koma baunirnar sem hafa verið gerjaðar og þurrkaðar af bændum síðan koma þær til okkar. Þá byrjum við á ristunni,“segir Kjartans og fer gegnum allt ferlið með Sjöfn í súkkulaðigerðinni og flettir ofan af leyndardómi súkkulaðisins.

M&H Súkkulaðið í Omnom 2

Framreiðslan á jólasúkkulaðinu hefur staðið sem hæst í haust og gleður bæði auga og munn. Súkkulaðið hjá Omnom er handgert og nostrað er við hvern einasta pakka. Svo eru það brögðin sem leynast í hverjum súkkulaðimola en þau hjá Omnom leitast við að með hverjum mola sé farið í ákveðna upplifun. „Vetrarlína Omnom er saga og ferðalag okkar í gegnum íslensku hefðirnar sem umvefja veturinn, hugsað til þess að ylja okkur um hjartarætur,“segir Kjartan og finnst fátt skemmtilegra en að vinna að vöruþróun og prófa sig áfram í súkkulaðibrögðum og réttum. Missið ekki af gómsætri heimsókn Sjafnar í súkkulaðigerðina Omnom sem kemur með bragðið af jólunum í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.

M&H Súkkulaðið frá Omnom 5.jpg

M&H Brennda ostakakan frá Kjartani 3