Lestur bóka sem hefja þig á flug og laða fram löngun í sælkerakræsingar

Þegar rithöfundar eru að störfum og ekki síst þegar þeir eru að skrifa um matargerð, bakstur og matarupplifanir í verkum sínum leiðir maður hugann að því hvort matarlöngun láti ekki á sér kræla. Stundum kallar fram lestur um ljúffengar kræsingar og kaffihlaðborð á sambærilega upplifun í raunveruleikanum. Við fengum Sólveigu Pálsdóttur rithöfund sem nýlega gaf út nýja bók á dögunum að segja okkur aðeins frá tilurð hennar og innihaldi. Og þar sem matur og bakstur á sælkræsingum koma nokkrum sinnum við sögu hjá sögupersónununum, fengum við Sólveigu til að deila með okkur uppskriftinni af sinni uppáhalds köku þessa dagana.

Sögur um dýrmætt fólk sem hafa mótað mig og lífsgildi

Nýja bókin hennar Sólveigu heitir Klettaborgin. Þar sýnir Sólveig á sér alveg nýja hlið en fyrri bækur hennar falla undir flokk glæpasagna. Sólveig segir aðspurð að hún hafi verið byrjuð að skrifa sína sjöttu glæpasögu þegar Covid-19 faraldurinn skall á og lagt þau áform á hilluna í bili því sögurnar sem Klettaborgin geymir leituðu sterkt á hana. „Ég fylgdi innsæinu og sé ekki eftir því. Þetta eru sögur um dýrmætt fólk sem hafa mótað mig og lífsgildi sem ég tel að eigi mikið erindi til okkar í dag. Það birtast margar litríkar persónur í Klettaborginni, sumar þjóðþekktar, og sögurnar eru tilfinningaríkar, fallegar og fyndnar.

Bakstur og matur kemur við sögu í Klettaborginni – Búttaðar kleinur og hornréttar randalínur

Eftirfarandi texti er úr kafla sem heitir „Búttaðar kleinur, hornréttar randalínur og hrifningaróp“ en þá er Sólveig á sjötta aldursári nýkomin í sveitina austur í Lóni sem verður heimili hennar í sex sumur.

„Ég hef aldrei séð eins mikið af bakkelsi, ekki einu sinni hjá ömmu og afa á Bessastöðum. Á miðju borði eru fylltar vatnsdeigsbollur sem búið er að hlaða upp í háan turn. Neðst eru örugglega tuttugu eða þrjátíu bollur en efst er aðeins ein. Niður turninn renna óreglulegir súkkulaðitaumar. Ég ræð mér ekki og rek upp hrifningaróp. Fólkið þagnar, horfir stundarkorn á mig áður en raddirnar liðast um loftið að nýju. Ég gríp báðum höndum fyrir munninn en augun gleypa nú í sig karamelluköku með döðlum. Rjómakennd karamellan er unaðslega girnileg og ég finn munnvatnið streyma fram á varirnar. Þarna er líka jólakaka með rúsínum, marmarakaka, brúnkaka, búttaðar kleinur, hornréttar randalínur, súkkatkaka, rjómaterta, svampbotn með rjóma og niðursoðnum ávöxtum, flatbrauð með heimareyktu hangikjöti, rúgbrauð með nýjum silungi, brauð með kindakæfu. Með öllu þessu bakkelsi og blíðlegu klappi á kinn frá Sigurlaugu er ég boðin velkomin í bæinn sem á eftir að verða heimili mitt næstu sex sumur.

Seinna áttaði ég mig á því að með svona viðurgjörningi var almennt tekið á móti gestum í Hraunkoti. Við sérstök tilefni var enn meira við haft.“

Klettaborgin bls.25

M&H Sólveig Pálsdóttir0002 múmín og sítrónukaka.jpg

Sítrónukakan sem bráðnar í munni

Hvað með Sólveigu sjálfa, bakar hún mikið og býður til hátíðarveislu eins og þessari sem er lýst svo vel í Klettaborginni. „Ég baka orðið mjög sjaldan“, segir Sólveig „en þegar krakkarnir mínir voru litlir þá bakaði ég auðvitað fyrir öll afmæli og svo stundum um helgar. Ég baka reyndar stundum enn fyrir afmæli eða í það minnsta fyrir dótturdætur mínar tvær. Vinsælust er jarðaberjaterta en með árunum hefur smekkur minn fyrir dísætum kökum næstum horfið svo ég ákvað að baka að frekar sítrónuköku fyrir ykkur. Mér þykir nefnilega flest allt gott sem inniheldur sítrónur og þegar ég hugsa um þær fer ég alltaf til Ítalíu í huganum. Ég smakkaði fyrst sítrónuköku hjá tengdasyni mínum en hann er meistarakokkur og flinkur bakari. Þessi sem ég geri fyrir ykkur er bæði súr og sæt. Uppskriftin er fengin frá Starbucks en í staðinn fyrir súrmjólk nota ég gríska jógúrt, sem gefur kökunni enn meiri raka.

M&H Sólveig Pálsdóttirsítrónukakan.jpg

Sítrónukaka

180 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

1 msk. rifinn sítrónubörkur

½ tsk. salt

115 g ósaltað smjör (við stofuhita)

200 g sykur

2 stór egg (við stofuhita)

1 tsk. vanilludropar

2 msk. sítrónusafi (ca. hálf sítróna)

120 ml súrmjólk eða grísk jógúrt

Sítrónusíróp

¼ bolli sítrónusafi, (ca. 1 sítróna)

3 tsk. flórsykur

Sítrónuglassúr

120 g flórsykur (sigta)

1 ½ msk. sítrónusafi

1 msk. mjólk

Hitið ofninn í 175°C (blástur). Hrærið saman smjöri og sykri þar til áferðin er létt og ljós. Bætið eggjum við einu í senn, vanilludropum og sítrónusafa. Hrærið vel. Sigtið helminginn af hveitinu og helminginn af grísku jógúrtinni saman við og hrærið á lægsta hraða. Sigtið afganginn af hveitinu og grísku jógúrtinni saman við og bætið lyftidufti, salti og sítrónuberki við. Hrærið varlega saman.

Hellið deiginu í smurt formkökuform (ca. 22x12 cm) og bakið við 175°C í um það bil 45-55 mínútur. Athugið að bökunartíminn getur verið mismunandi eftir ofnum svo best er að stinga prjóni í miðju kökunnar – ef engin kökumylsna fylgir honum er kakan tilbúin.

Kakan er síðan látin kólna í korter áður en hún er tekin úr forminu og pensluð með sítrónusírópinu (á meðan hún er enn heit). Þegar kakan er orðin alveg köld er sítrónuglassúrnum hellt yfir hana.

Njótið vel.