Það þekkja það allir sem unna grænmeti að það getur verið erfitt að geyma það í nokkra daga svo það haldi ferskleika sínum, útliti og áferð. Og nógu dýrt er þetta gersemi allt í innkaupum til að svekkelsið ágerist enn frekar við að sjá það linast ofan í grænmetisskúffunni og verða ólystugt og illa lyktandi. Það er að vísu snjallræði að frysta margt úr téðri skúffu þegar það er farið að láta á sjá, svo sem vínberin sem aldrei er þörf á að kasta (í öðrum pistli hér á síðunni segir af því hvað frosin vínber henta vel í orkudrykkina). En hvað með kálið? Víst setur maður það ekki svo glatt í frystinn til að nota afþýtt í næsta salat, en viti menn; það þarf ekkert að flækja hlutina í þessum efnum; setjið fáein eldhúsbréf í pokann eða boxið með kálinu áður en það er sett í geymslu inni í ísskáp. Það viðheldur ferskleika kálsins og heldur því þurru sem einmitt hægir helst á eðlilegri rotnun þess.