Ljóst er að sjálfstæðismenn í Reykjavík eru með böggum hildar yfir því að hafa misst völdin í borginni og engar líkur á að þeir komist aftur til valda. Frá 1994 hefur Sjálfstæðisflokkurinn aðeins stjórnað borginni í örfá misseri 2006-2010 – kjörtímabilið sem fullkomin upplausn ríkti í borgarstjórninni. Þrátt fyrir það reyna sjálfstæðismenn einatt að níða skóinn af meirihlutanum en án sjáanlegs árangurs.
Skoðanakannanir sýna að hægt og bítandi er Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík að skreppa saman á sama tíma og núverandi meirihluti bætir við sig. Eyþór Arnalds, oddviti flokksins í borgarstjórn hefur haldið uppi hjákátlegri og blekkjandi umræðu um stöðu mála í borginni og notið til þess óskoraðs stuðnings Morgunblaðsins. Af einhverjum ástæðum virðast bæði Eyþór og blaðið hatast mjög við Dag B. Eggertsson, sem hefur verið farsæll og vinsæll borgarstjóri.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, gerir í Morgunblaðinu í dag tilraun til að leggja lánlausum minnihluta Sjálfstæðisflokksins í borginni lið. En lítið gagnast að ryðjast fram á ritvöllinn með fleipur og blekkingar. Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er sterk og engu breytir þótt niðurifsaðilar reyni að tala hana niður og tuða um skuldavanda. Tölurnar tala sínu máli.
Einhvern veginn virðist það með öllu hafa farið fram hjá talsmönnum D-lista í Reykjavík að Borgin á næstum 100 prósent í Orkuveitunni. Sá eignarhlutur er trúlega um 300 milljarða virði. Þetta virðist ávallt gleymast þegar talsmenn Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn gera samanburð á fjárhag borgarinnar og nágrannasveitarfélaganna sem eiga nánast engar eignir aðrar en þær sem notaðar eru beint við rekstur sveitarfélaganna.
Vilhjálmur settist í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1982 þegar Sjálfstæðisflokkurinn vann meirihluta á ný eftir eitt kjörtímabil í minnihluta. Vilhjálmur var lykilmaður í borgarstjórn þegar Davíð Oddsson var borgarstjóri og ætti því að muna eftir því hvernig offjárfestingar borgarinnar keyrðu hana á örfáum árum á hnén þannig að stefndi í greiðsluþrot. Hið eina sem bjargaði Reykjavíkurborg Davíðs og Vilhjálms frá greiðsluþroti var að fjármálaráðherrann í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hlutaðist til um skuldabréfakaup ríkisins af borginni undir lok borgarstjóratíðar Davíðs. Það var Ólafur Ragnar Grímsson sem skar Sjálfstæðisflokkinn og borgarstjóra hans úr snörunni eftir fjárfestingarfyllirí þáverandi meirihluta í borgarstjórn..
Kostnaður við monthús Davíðs í lok ferils hans hjá borginni var óheyrilegur: Ráðhúsið, Perlan og Viðeyjarstofa. Allar þessar fjárfestingar juku stórlega á skuldasukk borgarinnar í valdatíð þáverandi meirihluta. Þegar Davíð lét af borgarstjóraembætti voru þessi verkefni öll í skuld og lausafjárstaða borgarinnar á hættulegum stað. Sjálfstæðismenn í borginni geta ekki bara reynt að gleyma þessu. Staðreyndirnar hverfa ekki og fjármálastjórn Sjálfstæðisflokksins í borginni á þessum tíma fær falleinkunn.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson veit þetta en vill trúlega ekki rifja það upp.
- Ólafur Arnarson