Power to the people er vinsælt slagorð hjá þeim sem vilja að almenningur hafi meira um pólitískt umhverfi sitt að segja.
Þýða má slagorðið þannig að valdið eigi heima hjá almenningi.
Í Reykjanesbæ hefur nú verið gerð tilraun með þetta. Tilraun sem kann að varða ekki bara atvinnulíf íbúa heldur einnig lýðheilsu með neikvæðum hætti. Ibúakosningingin snerist um deiliskipulag sem tengist umdeildu kísilveri. Skrifaðar hafa verið lærðar greinar þar sem varað er við loftmengun frá iðnaðinum.
Því verður þó að halda til haga að fyrir kosninguna hafði verið gefið út að niðurstaða kosninganna yrði höfð að engu - það er einkennilegt lýðræði.
En eigi að síður gafst íbúum Reykjanesbæjar kostur á aktívískri hreyfingu, þeim gafst kostur á að segja hug sinn.
En þeir nýttu sér ekki þann rétt, ekki nema lítið brot. Og þar með færðu þeir bæjarstjórn réttlætingarvopn upp í hendurnar, að það sé best að valdinu sé fyrir komið í höndum stjórnmálamanna. Að almenningi sé ekki einu sinni treystandi til að hugsa málin sjálfstætt og komast að niðurstöðunni, já eða nei.
Það sem kemur fram á heimasíðu Reykjanesbæjar segir meira en mörg orð:
\"Fleiri íbúar eru hlynntir breytingum á deiliskipulagi í Helguvík en þeir sem eru á móti, þótt mjótt sé á munum. Alls 471 íbúi eða 50.4% er hlynntur breytingunni og þar með uppbyggingu kísilvers Thorsil ehf. Við Berghólabraut en 451 eð 48,3% á móti. 12 skiluðu auðu sem gera 1,3%. Kosningum lauk kl. 02:00 í nótt og var kosningaþátttaka 8,71%.
Rafrænar íbúakosningar um breytingar á deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar kísilvers í Helguvík hófust 24. nóvember sl. Tæplega 2800 íbúar höfðu fyrr á árinu skrifað undir áskorun til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ þess efnis að efnt yrði til íbúakosningar um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík. Einungis þriðjungur þess fjölda tók þátt í kosningunni.
Þessi dræma kjörsókn þykir óheppileg þar sem rafrænar kosningar eru tæki sem Reykjanesbær hyggst nota í ríkari mæli í framtíðinni til eflingar íbúalýðræði og voru nýafstaðnar kosningar liður í því lærdómsferli.\"
Vonandi mun Ísland í heild ekki horfa til niðurstöðunnar í Reykjanesbæ. Þar hefur í besta falli orðið lýðræðislegt slys.
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)