Eyþór Arnalds fékk 60% atkvæða í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem einungis 3,885 tóku þátt í þrátt fyrir miklar auglýsingar og taumlausa smölun. Á kjörskrá í Reykjavík eru um 90 þúsund manns og 4% þátttaka gefur flokknum ekki góð fyrirheit vegna kosninganna í mai.
Enn á ný er konum hafnað í þessum flokki. Áslaug Friðriksdóttir fékk 21% atkvæða þrátt fyrir ötult starf fjölda kvenna. Sjálfstæðisflokkurinn eykur enn á ímyndarvanda sinn gagnvart konum og yngra fólki sem á ekki upp á pallborðið í flokknum.
Flokkurinn virðist telja að karlar á sextugsaldri með brösótta fortíð séu lausnin.
Kjartan Magnússon hlaut einungis 12% atkvæða. Honum er algerlega hafnað og fer væntanlega út af lista flokksins. Ekki er vitað hvort Áslaugu Friðriksdóttur geðjast að vera áfram í framboði fyrir flokkinn eftir þessar köldu kveðjur.
Uppstillingarnefndin er sögð hafa mestan áhuga á að stilla Mörtu Guðjónsdóttur og Sirrý Hallgrímsdóttur upp í sæti 2 og 3.
Eyþór Arnalds er frjálshyggjumaður lengst til hægri. Hann mun einkum höfða til þess þriðjungs kjósenda sem er til hægri. Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Framsókn munu berjast um þetta hægrafylgi en ekki eiga neinn hljómgrunn á miðjunni og yfir til vinstri.
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Björt framtíð geta því barist um þau 60% atkvæða sem þar verða í boði.
Niðurstaða prófkjörsins virðist því vera óskadraumur andstæðinga Sjálfstæðisflokksins.
Dagur B. Eggertsson verður áfram borgarstjóri.
Rtá.