Lekamálið á 1000 km hraða

Ég man vel kvöldið þegar ég kom heim úr Bridgefélagi Akureyrar, kveikti á tölvunni minni og las yfirlýsingu forsætisráðherrafrúarinnar okkar.

Síðan hefur boltinn rúllað. Nú er þetta nýjast að frétta af máli Wintris-hjónanna.

Mig dauðlangaði að vekja konuna mína sem var sofnuð þegar ég las yfirlýsinguna, upphaf málsins. Áratuga reynsla af innlendum fréttum og þá ekki síst pólitískum tíðindum sagði mínu fréttanefi að upp væri komið nýtt \"lekamál\", nýtt hneykslismál. Þar sem engan var hægt að ræða við þetta síðkvöld um mögulega stærsta skandal íslenskrar stjórnmálsögu frá lýðveldisstofnun, allir sofandi, ákvað ég að varpa fram á facebook tilgátu, sumsé þeirri að yfirlýsing forsætisráðherrafrúarinnar (sem ég hef forðast að nefna opinberlega með nafni vegna þess að málið snýst fyrst og fremst um pólitíska ábyrgð eiginmanns hennar en ekki hana sjálfa) væri að líkindum forvirkt viðbragð til að reyna að hafa stjórn á atburðarás og jafnvel skemma vinnu fyrir blaðamanni sen hefði leitað viðbragða vegna rannsóknar sinnar fyrir birtingu. Þetta forvirka viðbragð sneri einum þræði að því að vega að trúverðugleika annarra. Það kallast aðkast eða \"flak\" í kenningu Hermans og Chomsky um Áróðurslíkanið. Þegar aðkasti er beitt af fullum þunga geta fjölmiðlar sem leita sannleikans lent í miklum vanda, bjargir þeirra hafa verið brotnar niður þegar auði og völdum er beitt kerfisbundið í að snúa staðreyndum á haus.

Það kom á daginn að tilgátan á facebook var ekki úr lausu lofti gripin. Jóhannes Kr. Kristjánsson, einn þeirra íslensku blaðamanna sem ég ber mesta virðingu fyrir, hafði hringt og leitað viðbragða eftir að hann komst yfir gögn sem sönnuðu að eiginkona forsætisráðherra var skráð fyrir mikilli eign utan landsteinanna. Forsætisráðherrahjónin létu hans þáttar ekki getið í yfirlýsingu sinni en töluðu um Gróu á Leiti.  Vísuðu svo á Jóhannes Þór aðstoðarmann Sigmundar Davíðs til upplýsinga á sama tíma og þau sögðu að skörp skil væru milli umsvifa eiginkonunnar viðskiptalegra og stjórnmálaferils eiginmannsins.

Ekki batnaði ástandið þegar degi síðar kom í ljós að eignirnar væru hýstar í skattaskjóli á hinni illa þokkuðu Tortólu, tákni spillingar, einni helstu ástæðu vaxnandi ójöfnuðar í veröldinni, einni ástæðu þess að börnin okkar munu fá bakreikninga í hausinn, verða sliguð skuldum vegna þess að auðmenn víða um heim komast upp með að greiða ekki það sem þeim ber að greiða til samfélaganna svo hægt sé að halda uppi velferðarkerfi fyrir almenning. Svo greindi Kjarninn frá því að Wintris-félagið hefði gert kröfu upp á 500 milljónir króna í þrotabú bankanna. Hagfræðingar hafa bent á að um sé að tefla fjárhæðir sem geti skipt milljörðum fyrir forsætisráðherrahjónin. Á sama tíma og Sigmundur Davíð sat og situr beggja megin borðsins. Að ekki sé talað um allan pólitíska ferilinn, orðræðuna, ímyndina, allt frá árinu 2009.

Nýtt lekamál. Bara á 1000 km hraða.

Það tók Hönnu Birnu langan tíma að hrökklast frá völdum. Allan tímann sem hún sat áfram sem ráðherra eftir að lekamálið kom upp var hún í raun ómerkingur í starfi og í vonlausri vörn. Vont fyrir land og þjóð að búa við ráðherra sem fæstir gátu treyst. Hún varð tvísaga, beitti vægast sagt óvönduðum meðulum í þeirri viðleitni að þagga niður í þeim sem reyndu að vinna vinnuna sína. Þar voru sannleiksleitandi blaðamenn fremstir í flokki. Um afferu hennar og ólögleg afskipti af lögreglustjóra sem átti að rannsaka mál hennar af faglegri hlutlægni þarf ekki að hafa mörg orð. Hann hrökklaðist burt en hún sat áfram. Eftir úrskurð Umboðsmanns Alþingis var teningunum þó kastað. Hanna Birna féll og hefði e.t.v. betur hætt líka á þingi enda mun málið fylgja henni alla ókomna daga í pólitík.

Sama er e.t.v. að gerast núna, öll atburðarás gengur bara miklu hraðar fyrir sig en í lekamálinu. Ein ástæða hraðans er að margir fjölmiðlar hafa sinnt aðhalds- og eftirlitshlutverki sínu. Önnur ástæða er að málið nú varðar alla landsmenn með öðrum hætti en hitt. Leiða má líkur að því vegna \"við og hinir\" óyndisviðhorfsins hafi kælt málið ögn að á útlendingi var brotið. Þriðja ástæða hraðans nú er að þjóðin sér í gegnum taktíkina sem Hanna Birna beitti, að neita að svara spurningum, koma með yfirlýsingar að eigin vali, láta sem málið snúist um annað en kjarnann sjálfan. Svo skömmu eftir lekamálið og með viðkomu í löskuðuðum Illuga Gunnarssyni vegna Orku Energy málsins, dugar lítt fyrir ráðamenn að reyna að slá ryki í augu landsmanna. Að þolendavæða gerendur getur kannski virkað á suma í fyrsta skipti, en það er ólíklegt að árangur verði áfram sá sami og áður þegar sama bragðinu er beitt tvisvar.

Þá er það spurningin: Ætlar Sigmundur Davíð að draga lærdóm af Hönnu Birnu málinu?

Björn Þorláksson