Ákvörðun utanríkisráðherra Íslands um að kalla sendiherra Íslands í Moskvu heim og loka sendiráðinu þar samhliða því að krefjast þess að sendiráð Rússa í Reykjavík minnki starfsemi sína verulega hefur vakið mikla athygli. Ekki bara á Íslandi heldur einnig víða um heim. Víst er að þetta skref Íslands kemur illa við Rússa og hefur að sönnu ekki glatt Pútín sjálfan í öllum þeim mótbyr sem við er að fást. Því er haldið fram að Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra hafi tekið þessa ákvörðun ein og sjálf án þess að leggja hugmyndina fyrir ríkisstjórnina til samþykktar.
Mörgum þykir ákvörðun ráðherrans djörf. Sumum finnst hún flott og bera vott um mikinn kjark. Aðrir eru ekki eins hrifnir og eru beinlínis uggandi af ótta við viðbrögð Rússa sem gætu birst í hefndaraðgerðum. Aðrar Evrópuþjóðir hafa ekki stigið skref af þessu tagi. Stórþjóðirnar á meginlandi Evrópu hafa ekki valið að grípa til svona aðgerða og senda með því skilaboð til umheimsins sem eftir er tekið. Hvers vegna á þá dvergríkið Ísland að stíga fram með þessum hætti? Við erum innan við 400.000 íbúar Íslands en þjóðir sem telja tugi milljóna manna og hafa á að skipa herliði og búa að miklum herstyrk láta þetta ógert.
Líta verður á útspil ráðherrans sem frumhlaup sem helst má skýra með mikilmennskubrjálæði smáþjóðar sem á rætur í minnimáttarkennd og ríkri athyglisþörf. Svolítið í anda þess sem varð okkur Íslendingum að falla í aðdraganda hrunsins þegar við héldum að þessi dvergþjóð, með ónýta mynt og engan gjaldeyrisvarasjóð, gæti lagt undir sig fjölda alþjóðlegra fyrirtækja og banka. Vitanlega gekk það ekki upp og því fór sem fór.
Rússar eru engin lömb að leika sér við. Ef ákvörðun utanríkisráðherra Íslands kemur illa við Pútín og skósveina hans er óvíst með hvaða hætti þeir svara fyrir sig. Ef athygli þeirra beinist að Íslandi vegna þessa geta þeir hæglega unnið hér skemmdarverk sem kæmu illa við varnarlausa þjóðina. Þó að gott sé fyrir Íslendinga að vera aðilar að NATO þá hefur bandalagið engan varnarviðbúnað hér og gæti ekki hjálpað ef unnin yrðu skemmdarverk á innviðum hér eins og orkuverum, tölvukerfum – að ekki sé talað um sjálfan sæstrenginn sem er ákaflega viðkvæmur og afar mikilvægur fyrir hagsmuni þjóðarinnar.
Vert er að hafa í huga að Rússar hafa verið mikilvæg bandalagsþjóð okkar í viðskiptum í gegnum tíðina. Þeir hafa til dæmis keypt mikið af fiskafurðum sem hafa ekki átt greiðan aðgang að öðrum mörkuðum. Vafalaust þykja þeim það kaldar kveðjur að dvergríkið Ísland gangi fram fyrir skjöldu og gagnrýni voðaverk þeirra í ÚkranÚkraínuíu enda gangast þeir sjálfir ekki við því að þeir hafi gert neitt rangt. Við megum auðvitað hafa okkar skoðanir á þessum ógnarverkum. En höfum við efni á að reita Pútín til reiði og hefnda?
Sennilega hefði utanríkisráðherra Íslands átt að fara sér hægar og alla vega bera málið upp í ríkisstjórninni fyrir fram. Þá hefðu ráðherrar Vinstri grænna, sósíalistarnir, jafnvel beitt neitunarvaldi til að styggja ekki vini sína í austri.
- Ólafur Arnarson