Umfjöllun Hringbrautar og fleiri miðla um val á nýjum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA) að undanförnu hefur orðið til þess að vangaveltur um þessa stöðu eru byrjaðar. Hins vegar er tími til stefnu því Halldór Benjamín Þorbergsson hverfur ekki af vettvangi alveg strax.
Nokkur nöfn hafa verið nefnd og flest þeirra hafa verið útilokuð jafnharðan vegna þess að menn hafa ekki talið viðkomandi hafa til að bera þá eiginleika sem vitað er að muni gagnast best í þessu afar mikilvæga starfi, með fullri virðingu fyrir öðrum kostum þeirra sem nefndir hafa verið. Þar er um að ræða lipurð, lagni og kurteislega virðingu fyrir viðsemjendum sem aðeins hefur skort á í seinni tíð.
Bent er á hverju ákveðin en kurteisleg framkoma hefur skilað á þessum vettvangi og er þá einkum horft til Einars heitins Odds Kristjánssonar, formanns VSÍ, Vilhjálms Egilssonar, fyrrum framkvæmdastjóra VSÍ, og Eyjólfs Árna Rafnssonar, núverandi formanns SA. Allir þessir menn eru þekktir fyrir að ná árangri og færsælum niðurstöðum í flóknum málum með yfirvegaðri framkomu og með því að sýna viðsemjendum virðingu.
Staða framkvæmdastjóra SA er gríðarlega mikilvæg í íslensku samfélagi. Þess vegna er óhjákvæmilegt að í starfið veljist framkvæmdastjóri sem mikil sátt gæti orðið um, bæði innan atvinnulífsins og almennt í þjóðfélaginu því friður á vinnumarkaði er forsenda velsældar í samfélaginu. Stríðsástand á vinnumarkaði getur kollvarpað öllu.
Pólitísk hrossakaup eiga þarna ekkert erindi, munu ekki skila burðugum einstaklingi í þetta mikilvæga starf og munu ekki takast. Þau nöfn sem nefnd hafa verið í þessu sambandi fram til þessa eru ekki talin líkleg niðurstaða.
Nú hlýtur leitin að hefjast af fullri alvöru.
Vanda þarf valið.
- Ólafur Arnarson.