Stærsta hönnunarhátíð landsins HönnunarMars fer fram dagana 19.-23.maí og í tilefni þess heimsækir Sjöfn Þórðar tvær listakonur á sitt hvoru sviðinu þar sem þær hafa leitt saman krafta sína með samsýningu á verkum sínum, þær Fríðu Jónsdóttur gullsmið og Rögnu Ingimundardóttur leirlistakonu. HönnunarMars er boðberi bjartsýni og skapandi krafta í samfélaginu, boðar nýjungar og óvænta nálgun og það má með sanni segja með hönnun og sköpun þeirra Fríðu og Rögnu. Ólík sjónarmið og þekking þeirra fléttast hér saman með einstakri útkomu og sýna hve gaman að leiða saman listsköpun tveggja ólíkra einstaklinga.
„Leirlistafélag Íslands fagnar 40 ára afmæli í ár og í tilefni þess erum við leirlistamenn með sýninguna Snagi – höngum saman – það er í góðu lagi að hanga saman sem er framlag félagsins á HönnunarMars í ár. Við fengum það verkefni að hanna, skapa og móta snaga,“segir Ragna og afrakstur hennar verður til sýnis í skartgripaverslun Fríðu á Skólavörðustígnum og Skúmaskoti. Ragna er mjög persónuleg í allri sinni listköpun og fær innblástur sinn úr náttúrunni, þaðan koma formin og litirnir.
Fríða hannaði og smíðaði nýja skartgripalínu fyrir HönnunarMarsinn sem tengist henni í raun persónulega. „Skartgripalína byggir á tveimur útskornum fjölum sem staðsettar voru í Árneskirkju á Strönfum á 17.öld. Fjalirnar eru búnar að vera í eigu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1869,“segir Fríða en hún rakst óvænt á auglýsingu fyrirlestrar um hjátrú og galdra í þar sem var mynd af þessum fjölum sem heillaði hana. Fríða sækir innblástur sinn úr útskornu fígúrunum í þessum fjölum og til forfeðra sinna.
Mjög áhugavert innlit sem prýða verk þeirra. Meira um sköpun þeirra í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.