Leikrit ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram nýja fjármálastefnu. Hún felur í stuttu máli í sér að ríkissjóður verði rekinn með halla á næstu árum. Hið versta er hins vegar að líkt og fyrri stefna stjórnarinnar byggist hin nýja einnig á afar ólíklegum efnahagsforsendum, og því allt eins líklegt að ríkisstjórnin verði enn og aftur að leggja fram nýja stefnu að ári.

Fyrri fjármálastefna stjórnarinnar til fimm ára entist rétt rúmt ár. Við afgreiðslu hennar á síðasta ári var ítrekað varað við því að efnahagsforsendur hennar væru óraunhæfar en ríkisstjórnin skellti skollaeyrum við þeim aðvörunum. Nú blasir veruleikinn hins vegar við.

Ríkisstjórnin hefur nú sett á svið mikið leikrit um að í nýrri stefnu felist mikil ábyrgð í ríkisfjármálum. Óábyrgt sé að draga saman í ríkisútgjöldum á sama tíma og hagkerfið sé að dragast saman. Taka má undir þá staðhæfingu en vandinn er að ríkisstjórnin er ekki að auka tímabundið við fjárfestingar í hagkerfinu heldur þvert á móti. Þorri útgjaldaaukningarinnar fer í grunnrekstur ríkisins.

Samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að ríkisútgjöld aukist um 200 milljarða á árunum 2019-2024. Það samsvarar nærri fjórðungsaukningu ríkisútgjalda á ekki lengri tíma. Þar af aukast fjárfestingar um 15 milljarða en grunnrekstur um 185 milljarða króna. Með öðrum orðum heldur ríkisstjórnin áfram að belgja út báknið á tímum efnahagssamdráttar.

Þessi stefna ríkisstjórnarinnar mun ekki standast fremur en sú fyrri. Núgildandi hagspá gerir ráð fyrir skörpum samdrætti í ár en að strax á næsta ári verði hagkerfið komið í myndarlegan vöxt á ný. Það er ekkert í spilunum sem bendir til þess. Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar hafa m.a. sagt að ekkert bendi til slíks viðsnúnings. Fréttir af uppsögnum berast nú stöðugt sem bendir til þess að hagkerfið sé almennt að laga sig að breyttu ástandi. Því til viðbótar bendir nú margt til þess að framundan sé kólnun á byggingamarkaði. Hægt hefur á sölu auk þess sem fjöldi íbúða sem áður voru í AirBnB útleigu eru nú komnar í sölumeðferð. Offramboð íbúða mun því að líkindum draga verulega úr nýbyggingum á komandi ári.

Við þessar kringumstæður er full ástæða til að gæta varfærni. Nú er kjörið tækifæri til að auka við opinberar fjárfestingar en á sama tíma verður að gæta þess að grunnrekstrarkostnaður ríkissjóðs fari ekki úr böndunum. Ella mun reynast erfitt að ná jafnvægi í rekstri ríkissjóðs á ný, jafnvel þegar hagkerfið tekur við sér á nýjan leik. Hætt er við að óráðsía ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum muni kalla á skattahækkanir þegar fram í sækir. Enda hefur ítrekað verið varað við því að sú málamiðlun stjórnarflokkanna – að auka svo mikið við í ríkisútgjöldum en halda sköttum óbreyttum, væri ekki sjálfbær til lengdar. Það gæti því reynst umtalsvert verkefni að taka til í ríkisfjármálunum eftir þessa ríkisstjórn.