Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri Rúv segir að viðbrögðin við íslensku þáttaröðinni Ófærð séu „ótrúleg“.
„Þessi viðbrögð eru hvatning til að halda áfram á sömu braut hjá RÚV,“ segir Magnús Geir í færslu á facebook þar sem hann tengir við frétt Rúv um að 53% sáu annan þátt Ófærðar sem kemur úr smiðju Baltasars Kormáks.
Magnús Geir segir að spennan eigi bara eftir að magnast þegar líður á þáttaröð. Hann boðar tvöföldun leikins efnis. Á síðasta ári hafi stjórn RÚV samþykkt áætlun hans um að tvöfalda nýtt leikið efni í sjónvarpi.
„Vonandi verður hún að veruleika í náinni framtíð,“ segir útvarpsstjórinn en stríð hefur staðið um framtíð Rúv og fjárveitingar.