Það er upplifun að njóta samtals þeirra Þrastar Leós Gunnarssonar, stórleikara og sjómanns frá Bíldudal og Sigmundar Ernis í sjónvarpsþættinum Mannamáli á Hringbraut í kvöld.
Þröstur Leó fer þar yfir glæsilegan leikferil sinn í sjónvarpi, kvikmyndum og ekki síst á sviði, en hann hefur verið í fararbroddi íslenskra leikara á undanliðnum áratugum og stundum stolið senunni svo um munar, enda stórbrotinn leikari sem lifir sig svo gersamlega inn í hlutverk sín og rullur að ununun er hverjum áhorfenda að njóta.
Hann lýsir sjómennsku sinni í þaula, en hafið hefur alltaf togað í þennan vestfirska strák sem á stundum hefur verið við það að hætta í leiklistinni til að geta helgað sig dragnótinni og rækjutrollinu sem hefur átt hug hans allan á seinni árum. Og stundum hefur litlu mátt muna að hann hlyti ekki bana af, svo sem fyrir röskum tveimur árum þegar bátur hans, Jón Hákon fórst út af Aðalvík á Vestfjörðum, en einn skipverji fórst, skipstjórinn um borð.
Þresti tókst eftir margar tilraunir að toga tvo félaga sína upp á kjöl bátsins. Þar biðu þeir í um klukkustund á meðan báturinn sökk. Þá komu skipverjar á bátnum Mardísi þeim félögum til bjargar en Jón Hákon sökk endanlega nokkrum mínútum seinna.
Þröstur lýsir dramatískri atburðarásinni þegar hann reyndi og tókst loks að ná félögum sínum upp kjöl skipsins. Þar biðu þeir úrkula vonar. Þegar þeir sjá svo glitta í bát, sem síðan fjarlægðist þá aftur, hafi vonin fjarað út. „Þá missti ég alveg vonina, hún fjaraði út, \" segir hann og kveðst hafa hugsað sér að fyrst björgunin væri ekki fyrir hendi væri kannski best að hann kláraði bara ævina hér og nú.
En þá breytti Mardís skyndilega um stefnu. Ég hugsaði með mér: það er kannski best að ég deyi bara hér. Og hann hafi verið búinn að sætta sig við dauðann.