Skjálftavirknin í Sjálfstæðisflokknum eykst nú með hverjum deginum vegna varaformannskjörs á landsfundi sem hefst eftir 3 vikur.
Hanna Birna hefur lýst því yfir að hún sækist eftir endurkjöri sem varaformaður “að óbreyttu”. Þeir sem þekkja innviði flokksins vel, telja að með því sé hún að undirstrika það að hún muni ekki víkja með góðu nema formaður flokksins útvegi henni viðunandi stöðu. Hanna Birna gerði kröfu um að koma aftur inn í ríkisstjórnina eða taka við formennsku þingflokksins gegn því að víkja sem varaformaður í þokkalegri sátt. Því neitaði formaður flokksins með afgerandi hætti. Þá óskaði hún eftir því að henni yrði fengið viðunandi starf utan stjórnmálanna. Störf eru ekki á lausu þó flokkurinn vilji leggja mikið á sig til að losna við hana án mikilla átaka og leiðinda. Eini möguleikinn sem virðist vera í stöðunni er að bjóða henni sendiherrastarf þó það sé umdeild ráðstöfun. Náttfari spáir því að það gæti orðið niðurstaðan.
Ólöf Nordal er tilbúin að taka að sér varaformennsku en vill alls ekki fara í kosningaslag. Hún er vön því að fá völdin á silfurfati eins og reyndar hefur einkennt Nordalsfjölskylduna í áratugi. Allar mannvirðingar hafa komið til þeirra án átaka og ekkert hefur farið úrskeiðis fyrr en Guðrún systir hennar varð undir í rektorskjöri í Háskóla Íslands sl. vor. Það var fjölskyldunni mikið áfall og kom þeim öllum reyndar í opna skjöldu því Nordal hafði fram að þessu verið ósnertanleg valdaætt á Íslandi. Þeir sem til þekkja eru þess fullvissir að Ólöf taki enga áhættu. Því ætti hún að gera það? Henni liggur ekkert á.
Flokksforystan hefur þrýst mjög á Ólöfu. Nú er farið að panta áskoranir úr ýmsum áttum innan flokksins. Þannig hefur hverfafélag í Reykjavík sent frá sér áskorun, önnur kom frá fámennum fundi sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi í gær og loks sendu nokkrir flokksformenn á Vesturlandi frá sér áskorun. Þetta er pantað og meira mun koma af slíku á næstu dögum. Flestir sjá gegnum þessa nálgun sem er vægast sagt vandræðaleg. Minnir þetta helst á það þegar átök voru í flokknum á áttunda áratug síðustu aldar milli Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsen. Þá reyndu flokkseigendur klaufalegar aðferðir af þessu tagi. Flokkurinn beið af því mikinn og langvinnan skaða.
Á hliðarlínunni bíður svo Guðlaugur Þór Þórðarson ritari flokksins. Hann veit að engin kona innan flokksforystunnar hefur burði til að fara fram gegn Hönnu Birnu nema þá helst Ólöf. Hann veit að það stendur ekkert í lögum flokksins að varaformaðurinn þurfi að vera kona. Gulli er tilbúinn að stíga inn í hringinn og taka slag við Hönnu Birnu, ef þarf.
Í Morgunblaðinu í dag birtir hann vægast sagt einkennilega auglýsingu sem gengur út á fundaröð með ritara flokksins til að “hita upp” fyrir landsfund. Þar er tínt til alls konar fólk sem nýtur trausts á ýmsum sviðum þjóðlífsins og því teflt fram til að skreyta upphlaupið. Minnir þetta helst á fundaherferðir sem Árni Johnsen stóð fyrir í Suðurkjördæmi þar sem hann talaði á öllum fundum ásamt einhverjum vel þokkuðum borgurum. Það dugaði Árna ekki til endurkjörs því hann var felldur í prófkjöri flokksins haustið 2012. Náttfari sótti 2 svona fundi hjá Árna. Þótti annar þeirra fjölsóttur en á honum voru 12 manns. Á hinum fundinum voru auk frummælenda og Náttfara, ein hjón, fatlaður maður og hundur.
Náttfari hefur heyrt í tveimur þeirra sem auglýstir eru. Þeir voru fokreiðir yfir því að vera auglýstir með þeim hætti sem þarna er gert. Guðlaugur Þór bað þá að tala sem fagmenn á sínu sviði en gat ekki um auglýsingar og pólitískan uppslátt sem augljóslega er ætlaður til að styrkja stöðu Guðlaugs sjálfs í þeim átökum sem standa yfir innan flokksins.
Mikill skjálfti er vegna alls þessa innan Sjálfstæðisflokksins. Er það að vonum því ljóst er að verði varaformaður kjörinn sem ekki er ráðherra nú, mun hann eða hún krefjast ráðherrastóls strax eftir landsfundinn. Þá yrði Illugi Gunnarsson væntanlega að víkja vegna veikrar stöðu í kjölfar þeirra mála sem tengjast fjármálasukki hans og Orka Energy.