Leiðin frá strætó til alþingis

Hvernig getur maður eiginlega komist inn á þing spyr Dagfari? Ætli sé best að gera eins og Bryndís Haraldsdóttir, sem sett var með handafli í 2. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Kraganum eftir að hafa naumlega náð 5. sætinu í prófkjöri?
Kannski dugir henni 2. sætið, næst á eftir formanninum, til að ná þingsætinu. Leið hennar að þessum mikla frama hefur verið ... hvað skal segja .... þyrnum stráð. Að minnsta kosti fyrir aðra en hana sjálfa.
 
Bryndís þessi veit hvað hún vill. Ferill hennar sýnir að hún gerir sér líka fulla grein fyrir hvað þarf að gera til að ná því sem hún vill. Hún var skipuð stjórnarformaður Strætó bs (bs stendur fyrir \"byggðasamlag\" sem er fyrirtæki í sameiginlegri eigu og undir sameiginlegri stjórn tveggja eða fleiri sveitarfélaga, í þessu tilviki sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu). Tilnefnd af Sjálfstæðisflokknum. 
 
Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er umfram allt flokkur einkaframtaks og einkavæðíngar gekkst stjórnarformaðurinn að sjálfsögðu fyrir einkavæðingu hjá strætó. Frá þeim afrekum segir Stundin þann 18. nóvember 2015 að hagræðingin sem næst með útboðum hafi verið á kostnað starfsmanna: \"Stjórn félagsins og kjörnir fulltrúar eru meðvitaðir um að ‘hagræðingin’ í einkarekstri sé að hluta til lögð á herðar launafólks.\"
Hér má sjá í heild greinina í Stundinni 18. Nóvember 2015: http://kvennabladid.is/2015/11/18/starfsfolki-straeto-hotad-einkavaedingu-i-midjum-kjaravidraedum/ 
 
Þetta mál vakti auðvitað athygli, en þó hvergi nærri í líkingu við þá athygli - að endemum - sem málefni Ferðaþjónustu fatlaðra höfðu áður fengið þegar sú þjónusta var einkavædd og blindni kreddufestunnar náði hreinni fullkomnun. Allri reynslu og þekkingu var kastað fyrir róða. Óvanir starfsmenn - og ódýrari - fengnir og skipti engu að þeir kunnu ekkert til verka. Komu ýmist margir að sækja einn fatlaðan viðskiptavin, eða enginn og sá fatlaði mátti dúsa úti í frosti og byl um lengri eða skemmri tíma. Svo kom nokkrum sinnum fyrir að fötluðum, jafnvel unglingum, var skutlað út á röngum stað, keyrt í burtu og viðskiptavinurinn skilinn eftir bjargarlaus. Og þá er eftir að nefna þegar fjölfötluð stúlka gleymdist í bílnum klukkutímum saman. Í ágætri samantekt RÚV um málið 29. desember 2015 er þessi íroníska málsgrein: \"Fram kemur að nokkrar úrbætur hafi þegar verið gerðar. Upplýsingamiðlun hafi verið bætt og búið er að koma að mestu (leturbr. hér) í veg fyrir að margir bílar mæti á stað þar sem eingöngu er þörf á einum bíl, eins og dæmi voru um. Þá hafi starfsmönnum í þjónustuveri verið fjölgað.\"
 
Hér má sjá smantekt RÚV:
http://www.ruv.is/frett/straeto-sinni-afram-thjonustu-vid-fatlad-folk
 
Þrátt fyrir mikla reiði í samfélaginu, ítrekaðan fréttaflutning af hremmingum fatlaðra og áskoranir um úrbætur voru viðbrögð Strætó bs lítil önnur en að fyrri ákvarðanir skyldu standa hjvað sem hver segði! Þetta var jú hagræðing \"koste hvad det vil!\" Fatlaðir eða ekki!
Svona stefnufesta er auðvitað aðdáunarverð og sannarlega verðlaunaverð! Til dæmis með því að verðlauna þennan fyrrum stjórnarformann Strætó bs með því að lyfta úr öruggu fallsæti eftir prófkjör í (næstum) öruggt þingsæti. Skítt með að það sé á kostnað þingmanns sem hafði unnið fyrir sinni kosningu og verið ötull á þingi árum saman. En - þetta er vegna kvennahallæris Sjálfstæðisflokksins, svo er nú það!