Réttkjörin yfirvöld á Íslandi ákveða að afturkalla rekstrarleyfi fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum sem uppfylla ekki skilyrði og eru rekin með þeim hætti að náttúru landsins stafar hætta af.
Þá grípur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur inn í og keyrir lög í gegnum Alþingi sem ganga þvert á náttúruvernd, viðhalda vafasamri starfsemi um tíma og eru nálægt því að brjóta stjórnarskrá Íslands. Náttúran er ekki látin njóta vafans heldur norskir auðmenn sem eiga fiskeldisfyrirtækin. Þeir fjárfesta á Íslandi í opnu sjókvíaeldi og telja sig komast hér upp með það sem þeim er bannað að gera heima í Noregi.
Þingmenn flestra flokka láta gott heita og leyfa ríkisstjórninni að keyra breytingar í gegnum þingið vegna þess yfirgengilega áróðurs sem beitt er vegna málsins og hræðir þingmenn. Norsku auðmennirnir beita öllum brögðum í áróðri sínum.
Vinstri græn munu fara verst út úr þessu máli þegar öllu verður á botninn hvolft. VG hefur hingað til þóst vera náttúruverndarflokkur - en er það ekki þegar til kastanna kemur. Þegar á reynir er VG bara valdastreytuflokkur alveg eins og Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta er nú að koma skýrt í ljós og verður þeim dýrkeypt, einkum formanninum Katrínu Jakobsdóttur. Eftir þetta mál stendur hún uppi berskjölduð og umhverfisráðherra flokksins - og Landverndar - lítur kjánalega út, svo ekki sé meira sagt.
Alls staðar er verið að hverfa frá opnu sjókvíaeldi vegna þeirra náttúruspjalla sem það getur valdið. Villtir laxastofnar eru í hættu og við því er brugðist. Gunnlaugur Stefánsson í Heydölum, fyrrverandi þingmaður, lýsir hættunni af opnu sjókvíaeldi svona í blaðagrein:
“Opin eldisiðja er hrein tímaskekkja. Lús, óútskýrður fiskdauði, sjúkdómar, fiskur sleppur, erfðablöndun við villta stofna, uppsöfnuð mengun og óþrifnaður skaða lífríkið í fjörðunum. Þetta veldur því að virt matsfyrirtæki vilja ekki votta matvæli úr svona framleiðslu. Er nema von að íslenska kokkalandsliðið neiti að leggja nafn sitt við slíkar afurðir eða virtir veitingastaðir bera á borð gesta sinna. Dreifðar byggðir eiga betra skilið en þessar fabrikkur.”
Gunnlaugur leggur til hið sjálfsagða að allt fiskeldi fari upp á land eða verði í lokuðum kerfum. Hann vill ekki að við þjónum ævintýramennsku norskra auðrisa.
Vinstri græn bera ábyrgð á þessu sem forystuflokkur núverandi ríkisstjórnar.
Katrín Jakobsdóttir og félagar ættu nú að hætta að belgja sig út með tali um náttúruvernd. Þau eru ekki lengur trúverðug því Vinstri græn eru ekki lengur græn. Þau eru grá. Vinstri grá.
Umhverfissóðaskapur núverandi ríkisstjórnar gæti orðið pólitískur banabiti Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grárra.
Rtá.