Lax í rjómasósu með sólþurrkuðum tómötum sem börnin elska

Eftir helgarmatinn þar sem við leyfum okkur aðeins meira í sælkerakræsingum og eftirréttum er fiskur kjörinn í kvöldverð á mánudegi. Hér er komin frábær uppskrift af ljúffengum laxarétti úr smiðju Berglindar Hreiðars köku- og matarbloggara hjá Gotteri og gersemar.

„Lax er í uppáhaldi þegar kemur að fiski hjá mörgum hér í fjölskyldunni, já eða allur bleikur fiskur eins og stelpurnar mínar og þá er þessi tilvalinn,“ segir Berglind.

Þennan rétt er bæði fljótlegt og einfalt að elda og bera fram.

M&H -lax-10-1024x683.jpg

Lax í rjómasósu með sólþurrkuðum tómötum

Fyrir um 4 manns

  • 4 laxabitar (um 800 g)
  • 2 rifin hvítlauksrif
  • 150 g Sacla sólþurrkaðir tómatar
  • 150 g Sacla grillaðar paprikur
  • 400 ml rjómi
  • 1 msk. Sacla Fiery Chilli Pestó
  • 60 g spínat
  • 30 g rifinn parmesan + meira til að rífa yfir
  • 20 g smjör
  • Ólífuolía
  • Salt og pipar
  1. Skolið og þerrið laxinn.
  2. Bræðið smjörið og setjið smá ólífuolíu saman við á háum hita.
  3. Steikið laxinn í um 3-4 mínútur á hvorri hlið svo hann verði stökkur að utan og eldaður að innan, saltið og piprið og færið síðan yfir á disk og lækkið hitann á pönnunni.
  4. Setjið hvítlauk, grillaðar paprikur og sólþurrkaða tómata (gott að taka þá í tvennt ef þeir eru mjög stórir, sama á við um paprikuna) á pönnuna og steikið stutta sund, bætið við olíu eftir þörfum.
  5. Hellið rjómanum yfir og hrærið Pestóið saman við, kryddið aðeins til eftir smekk.
  6. Bætið þá parmesanosti saman við sósuna og hrærið þar til hann bráðnar og bætið að lokum spínatinu saman við.
  7. Leyfið þessu að malla í um tvær mínútur, bætið þá laxinum aftur á pönnuna og berið fram með kartöflum, kartöfluklöttum eða öðru sem hugurinn girnist.
M&H -lax-10-1024x683.jpg

Girnilegur þessi laxaréttur./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.