Gengi hlutabréfa Icelandair heldur áfram að lækka þannig að verðmæti félagsins er komið niður í um 40 milljarða króna en fór hæst í 185 milljarða fyrir tæpum tveimur árum.
Staðan er orðin alvarleg og horfur að óbreyttu eru þungar. Mönnum er tíðrætt um eldsneytishækkanir á heimsmarkaði og skaðann sem íslenska krónan veldur.
En það vantar að meira sé fjallað um mesta vandamál félagsins sem er launakostnaður sem hlutfall af tekjum. Það er sá kostnaðarliður sem veldur því að Icelandair er ekki lengur samkeppnisfært fyrirtæki á flugmarkaði.
Lítum á hlutföll frá árinu 2017: launakostnaður sem hlutfall af tekjum Icelandair nam 32% en var 21% hjá SAS og British Airlines og um 17% hjá Lufthansa, Norwegian og Finnair. Að ekki sé talað um WOW sem var með 15% launakostnað af tekjum.
Samkeppnishæfi Icelandair er ekki boðleg eins og þessar tölur sýna en þær birtust nýlega í Fréttablaðinu og hafa ekki verið véfengdar.
Launakostnaður á Íslandi hefur hækkað langt umfram önnur OECD- ríki á síðari árum. Samkeppnishæfi atvinnulífsins er að minnka eins og dæmið um Icelandair sýnir glöggt.
Þá er það einnig ljóst að gengi krónunnar er of hátt skráð og þarf að veikjast hið fyrsta.
Ef ekki á illa að fara fyrir Icelandair þarf hlutfall launa að fara hratt niður í 20-25% til að vera samkeppnishæfara. Það gerist ekki nema með samræmdu átaki til hækkunar tekna og lækkunar launakostnaðar.
Starfsfólk Icelandair þarf að sýna þessu skilning ef það vill ekki missa þetta lykilfyrirtæki þjóðarinnar út höndum Íslendinga. Það þarf að fækka starfsfólki og semja um lækkanir launa eða aukið vinnuframlag fyrir sömu laun. Þetta gerist ekki nema með sameiginlegu átaki allra starfsmanna og allra starfshópa innan félagsins.
Verði þessi alvarlega staða ekki viðurkennd og við henni brugðist hið fyrsta, getur illa farið fyrir Icelandair því reksturinn gengur ekki upp að óbreyttum launakostnaði.
Ekki viljum við að SAS eða önnur flugfélög komi og hirði þetta glæsilega þjóðarflugfélag okkar - sem gæti gerst ef staðan heldur áfram að veikjast.
Rtá.