Launakostnaður gæti sligað icelandair

Afkomuviðvörun Icelandair fyrir viku hefur hreyft við mörgum fjárfestum á markaðnum. Þá hafa greinendur og fjölmiðlar mikið velt stöðu og framtíð félagsins fyrir sér.

Fjárhagsstaða Icelandair er sterk. Hlutfall eiginfjár er hátt, skuldir hóflegar miðað við umfang og lausafjárstaða afar góð. Þrátt fyrir að afkoma valdi nú vonbrigðum er félagið vel rekið og unnið er að margvíslegum skipulagsbreytingum og rekstrarhagræði.

Vandi félagsins felst í launakostnaði. Hækkanir launa hafa verið óheyrilegar. Á tveimur árum hafa laun hækkað um 58.9% sem er algerlega galið. Launakostnaður sem hlutfall af tekjum hjá félaginu var í fyrra 31.4% en til samanburðar var þetta hlutfall 20.1% hjá British Airways og 17.4% hjá Lufthansa á sama tíma.

Þarna liggur hundurinn grafinn!

Starfsfólk Icelandair hefur knúið fram óheyrilegar kjarabætur fyrir sig og beitt hótunum um verkföll, skæruhernað og stöðvun allrar starfsemi félagsins, jafnan þegar verst stendur á. Forysta flugfólksins hefur ekki sést fyrir og nú eru afleiðingar af heimtufrekju þess farnar að sýna sig.

Launakostnaður sem hlutfall af tekjum hjá Icelandair þarf að fara umtalsvert niður sem fyrst. Annars verður framtíð félagsins teflt í tvísýnu sem við Íslendingar megum ekki við.

Ólíklegt er að samningamenn flugvirkja, flugfreyja og flugmanna skilji þetta - eða vilji skilja þetta.

Staðan verður trúlega ekki lagfærð nema með aðkomu löggjafans. Það þarf að breyta vinnulöggjöfinni þannig að afmarkaðar sérhagsmunastéttir hafi ekki vald til að skaða hagsmuni heildarinnar, t. d. með því að loka landinu og grafa undan hagsmunum mikilvægra fyrirtækja og heilla atvinnugreina.

Þetta er engin óskalausn. En eitthvað verður til bragðs að taka!

Rtá.