Það er ekki leiðinlegt að grilla; standa keikur úti á verönd eða svölunum með spaðann á lofti og svuntuna vel reyrða um mittið og finna hvernig ilmurinn byrjar að magnast frá grindinni fyrir ofan gasið eða kolin. En munið þessi ráð, grillarar góðir; hafi kjötið í stofuhita í góðan tíma áður en því er skellt á grillið, en leyfið grillinu að hitna vel á undan sem er lykilatriði fyrir meyra steik, berið olíuna á teinana fyrst þegar grillið er orðið nógu heitt - og svo þetta sem gleymist alltof, alltof oft; ekki vera endalaust að fikta í gillkjötinu eða opna og loka grillinu, því maturinn missir við það bragðið eða öllu heldur keiminn af reyknum sem gerir góðan grillmat einstakan, já, einmitt; það er nóg að snúa kjötinu einu sinni og hafa grillið lokað þess á milli - og ef það er gert oftar eykur það bara líkurnar á að fitan leki niður á botn með tilheyrandi eldgosum. Verði ykkur að góðu!