Lárpera smyr líkamann að innan

Fáir ef nokkrir ávextir smyrja líkamann jafn vel að innan og lárperan sem upprunin er í Mexíkó og gengur víðast hvar undir nafninu avakadó. Endurteknar rannsóknir benda til þess að dagleg neysla lárperunnar hafi góð áhrif á líkamann, enda er hún stútful af trefjum, próteinum og ekki síst einómettuðum ómega 3 fitusýrum sem þykja með allra hollustu fitusýrum sem náttúran hefur upp á að bjóða. Þá eru ónefnd fjölmörg vítamín sem peran hefur að geyma, ásamt fólinsýru, fosfór, magnesíum og járni. Lárperan, sem stundum er kölluð smurning líkamans, hjálpar til við liðagigt og vinnur einnig gegn hjartasjúkdómum enda þykir hún mýkja æðakerfi líkamans með þeirri mikilvægu fitu sem hún færir skrokknum. Og þá er bara spurningin hvenær best er að neyta þessa ofurávaxtar, því það getur reynst mörgum erfitt að átta sig á því hvenær lárperan er passlega þroskuð til matar. Og þetta er ráðið: Best er að taka nabbann úr sem er efst á ávextinum og sjá hvernig litur blasir við þar undir. Ef liturinn er ljósgrænn er peran alveg hæfilega þroskuð.