Langflestir fjölmiðlar á hausnum

 

Hún er allrar athygli verð samantektin sem Valgeir Örn Ragnarsson hefur tekið unnið fyrir Ríkisútvarpið og birtist í sjónvarpsfréttum Rúv í gær.

Þar er sögð saga taprekstrar íslenskra fjölmiðla. Verður vart annað sagt en að krafa sé uppi um að hið opinbera hlutist til um hvernig hægt verði að styrkja sjálfstæða fjölmiðlun á landinu, enda um eina af grunnstoðum lýðræðis að ræða, sjálft Fjórða valdið. Annars er hætta á að áhrif fjölmiðla færist um of yfir á örfáar hendur með þeim afleiðingum að erfiðara verði að greina á milli faglega hlutlægrar upplýsingar og áróðurs. Allnokkur eigendaskipti sem orðið hafa innan fjölmiðlaheimsins síðustu misseri renna stoðum undir slíkar áhyggjur.

Í samantekt Rúv eru nefndar nokkrar taptölur sem vert er að staldra sérstaklega við. Fjárhagsvanda Rúv þekkir þjóðin vel en hvernig skyldi staðan vera hjá einkaframtakinu? Í krafti hagkvæmni og samlegðaráhrifa segja sumar kenningar að minni líkur séu á tapi því stærri sem fjölmiðlaeiningin er. Því er þó ekki að skipta hér á landi.

„Stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins, 365 tapaði um 1.360 milljónum króna í fyrra. Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins og mbl.is, tapaði 42 milljónum og hefur flest undanfarin ár verið rekinn með tapi. Skjárinn, sem nú hefur sameinast Símanum, tapaði 44 milljónum. Vefmiðilinn Kjarninn tapaði ríflega 8 milljónum og staðan er jafnframt erfið hjá einkareknum sjónvarpsstöðvum sem leggja áherslu á íslenskt efni. Þannig tapaði ÍNN 10 milljónum í fyrra og N4 ríflega 15 milljónum. Tímaritaútgáfan Birtíngur færði niður allt hlutafé sitt á síðasta ári og eigendur komu með nýtt hlutafé,“ segir í samantekt Valgeirs.

Vikið er orðum að því að útgáfufélag Viðskiptablaðsins hafi verið rekið með 14 milljóna hagnaði í fyrra og útgáfufélag Fréttatímans einnig réttu megin við núllið. Einnig hafi orðið hagnaður af útgáfufélagi Reykjavíkur Vikublaðs, Akureyrar vikublaðs og tíu annarra blaða. Sum þessara blaða voru keypt upp í fyrrasumar þrátt fyrir ábatasaman rekstur og hafa ekki komið út síðan líkt og Akureyri vikublað.

„Hvorki Vefpressan, sem rekur Pressuna og Eyjuna, né DV ehf. sem eru í eigu sömu aðila, hafa skilað ársreikningi fyrir síðasta ár. Fjölmiðlarnir Stundin og Hringbraut hófu göngu sína á þessu ári og því liggja upplýsingar um afkomu þeirra ekki fyrir,“ segir í frétt Rúv.

Hringbraut hefur nú með skömmu millibili birt tvær fréttir þar sem annars vegar dósent í fjölmiðlafræði við HA og hins vegar framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar benda á þá ríkisstyrki sem einkarekin fjölmiðlun njóti í nágrannalöndum.

Hér á landi hefur jafnan skapast tregða gegn þessari hugmynd. Annað er að íslenska fjölmiðlaumhverfið hefur sumpart verið eins og villta vestrið miðað við þau reglugerðarskilyrði sem nágrannalönd hafa sett til að auka fagmennsku fjölmiðla. Hér má sem sagt meira í fjölmiðlun en víðast annars staðar en á sama tíma er litlu fé veitt í aðhald og hverjum er ætlað að bjarga sér sjálfum. Sem ýtir undir skuggafé og skuggayfirráð.

Ef almenningur getur ekki treyst því að fá góðar og faglega hlutlægar upplýsingar í gegnum fjölmiðla blasir við sami vandi og t.d. ef krafan um menntun borgaranna myndi byggjast á hagnaðarsjónarmiðum einum, segir bandaríski fjölmiðlafræðiprófessorinn Robert McChesney sem talar fyrir stórauknum ríkisstyrkjum til fjölmiðla.

Forvitnilegt verður að sjá hvort íslendingar fljóta sofandi að feigðarósi eða bregðast við því ástandi sem nú er á fjölmiðlamarkaði. Netið hefur leitt til upplýsingabyltingar en því getur fylgt lýðræðislegur bakreikningur ef almenningur nennir ekki lengur að greiða fyrir þá sérhæfðu og mikilvægu vinnu sem vönduð og faglega hlutlæg fréttamennska er hverju samfélagi. Ein spurninga samtímans er hvort búið sé að endurvekja flokksblöðin - aðeins án ríkisstyrkja og undir rós. Gagnsæi vantar. Margt bendir til að þeir sem láta sig hafa það að tapa stórfé á fjölmiðlareksrtri séu með það sem kallast hidden agenda í huga.

Lesa má úttekt Ríkisútvarpsins hér.

(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)