Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans segir í blaðaviðtali að “Landsbankinn líti gríðarlega vel út fyrir fjárfesta um þessar mundir sé litið á þróun rekstrarins í gegnum síðustu uppgjör og framtíðarsýn.”
Hún myndi vilja sjá bankann í dreifðu eignarhaldi en ríkið á nær allt hlutafé Landsbankans. Það er skiljanlegt að stjórnendur bankans vilji að ríkið hefji sölu á hlutabréfum bankans en þegar liggja fyrir heimildir til sölu á allt að 30% hlut. Það hlýtur að vera íþyngjandi fyrir þá sem stjórna bönkunum að þeir séu að öllu leyti í eigu ríkisins. Eðlilegt væri að marka pólitíska langtímastefnu sem gengi t.d. út á það að ríkið ætti áfram kjölfestuhlut í bankanum en seldi meirihluta bankans með dreifðum hætti á markaði. Rökstuðningur Lilju Bjarkar í viðtalinu er skýr og trúverðugur.
En stjórnmálamenn ráða för. Samdægurs var Katrín Jakobsdóttir spurð hvort til stæði að hefja sölu á hlutabréfum í bankanum. Forsætisráðherra vinstri stjórnarinnar talaði skýrt: “Landsbankinn verður ekki sledur á næstunni.”
Sala hlutabréfa í Landsbankanum hefst ekki á meðan vinstristjórn formanns Vinstri grænna ræður för.
Þarna sjáum við eina birtingarmynd þeirrar ömurlegu stöðu sem uppi er í íslenskum stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa rétt sósíalistum lyklana að stjórnarráðinu og með því tryggt að ekki verður leyfð eðlileg framvinda í atvinnu-og viðskiptalífi landsmanna á meðan það ástand varir. Vonandi verður það ekki of lengi.
Vert er að hafa í huga að tæknileg þróun í bankamálum á Vesturlöndum er nú svo ör að ætla má að aukin sjálfvirkni og aðrar tæknilegar breytingar muni að mestu kippa fótum undan viðskiptabankastarfsemi eins og við þekkjum hana. Með því mun verðmæti viðskiptabanka eins og Landsbankans rýrna jafnt og þétt á komandi missirum og árum.
Á meðan fellur þessi verðmæta eign ríkisins í verði vegna þess að sósíalistinn við borðsendann í stjórnarráðinu segir: NEI.
Rtá.