Sérstök umræða fór fram á Alþingi í morgun um bankasölu. Þar féllu stór orð hjá stjórnarliða sem velta jafnvel upp spurningum um hvort þingmeirihluti sé fyrir fyrirhugaðri sölu ríkisins í Landsbankanum síðar á árinu 2016 samkvæmt túlkun stjórnarandstöðunnar.
Árni Páll Árnason, Samfylkingunni, hóf umræðuna. Hann varaði við biturri reynslu Íslendinga af sölu banka og talaði fyrir grundvallarbreytingum á fjármálakerfinu. Hann varaði við stórum skrefum áður en slík endurskoðun færi fram.
Steingrímur J. Sigfússon, VG, minnti á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Ef horft væri til markaðsaðstæðna nú mætti halda fram að ríkið ynni gegn eigin hagsmunum með því að selja sína hluti í Landsbankanum. Gott væri að eiga Landsbankann, hann gæfi nú af sér til ríkisins eins og besta mjólkurkýr. „Er ekki betra að ríkið eigi banka en láta þá frá sér og bera á byrgð á þeim samt? Fremur en að afhenda þeim einkaaðilum sem á undravert skömmum tíma setja þá á hausinn en samt ber ríkið ábyrgina?“
Frosti Sigurjónsson, framsóknarmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, flutti þá ræðu sem fréttnæmust hlýtur að teljast úr röðum stjórnarliða. Hann staðhæfði að aðstæður væru þannig nú að ekki væri mögulegt að fá gott verð fyrir hluti ríkisins í Landsbankanum. Frosti benti á að ríkið hefði uppskorið 200 milljarða af eignarhlutinum í Landsbankanum og stefndi í 63 milljarða til viðbótar í ár. Með því að eiga eignarhlutinn áfram njóti allir landsmenn ágóðans, annars rynni ágóði til þröngs hóps. Frosti gekk svo langt að spá því að ef hlutur ríkisins í Landsbanka yrði seldur nú færi hann á tombóluverði. Hann spurði hvort það væri vit í því að ríkishlutur færi á tombóluprís úr arðbærasta fyrirtæki ríkisins? Hann benti einnig á að ef stór hluti bankakerfisins myndi enda í hópi erlendra fjárfesta grafi það undan landinu, gjaldeyrisútstreymi gæti numið hundruðum milljarða á einu ári. „Mín niðurstaða er að ekki sé hægt að fá gott verð fyrir eignarhlutinn í bankanum.“
Helgi Hrafn, Pírötum, sagði að í þessu máli yrði að hafa í huga að alþjóðlegar hagfræðikenningar gengju ekki upp hér vegna einangrunar, íslensku krónunnar og fámennis. Mikilvægt væri að ræða mál hér í samhengi við einangrun okkar og sérstöðu. Hætt væri við því til lengri tíma ef fjármagnshöft yrðu afnumin með öllu að almenningur og fyrirtæki færu sjálf að taka upp erlenda gjaldmiðla. Þetta skipti bankarekstur miklu máli.
Oddný G, Harðardóttir, Samfylkingu, vísaði til orða Gylfa Magnússonar fv. ráðherra um hvaða krafa skuli gerð um eigið fé íslenskra banka. Þá þurfi einnig að svara spurningum Gylfa um dreift eignarhald, aðskilnað fjárfestinga og viðskipta í bankastarfsemi, ræða gjaldmiðilinn og stærð bankakerfisins. „Við ættum að gefa okkur tíma til að veta fyrir okkur spurningum Gylfa, það liggur ekkert á.“
Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki sagði að oft gleymdist í umræðunni að við greiðum gríðarháar fjárhæðir í vexti. Bankar hér séu allt of stórir. Ekki síst hafi Íbúðalánsjóður kostað almenning slíkar fjárhæðir að hefðu dugað til að byggja nýjan Landspítala. íbúðalánasjóður hafi öll einkenni samfélagsbanka sem „sumir tali svo digurbarkalega um“. Sendi Guðlaugur Þór samherja sínum í ríkisstjórninni, Frosta Sigurjónssyni pillu með þeim orðum.
Steingrímur J. sagði í seinni ræðu sinni að stjórnarflokkarnir verði að fara að tala saman. „Gera menn ekkert með það að formaður efnahags- og viðskiptanefndar tali eins og hann gerir hér og færir sterk rök fyrir?“
Birgitta Jónsdóttir, Pírötum, sagðist ekki skilja bráðlætið að stefna að sölu á Landbankanum í ár. Hún hét því að gera alt sem hún gæti til að standa í vegi fyrir að svo verði.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í síðari ræðu sinni fróðlegt að fá ólíkar skoðanir fram. Hann varði fyrri einkavæðingu bankanna, það hefði verið rétt að koma bönkum úr höndum ríkisins en áhættusækni eigenda hefði komið samfélaginu í koll. Þá sagðist hann ekki skilja þá umræðu að vont væri að stefna að sölu nú af því að bankinn væri að skila miklum arði. Tekinn yrði út mikill arður áður en hann yrði seldur.
(Samantekt: Björn Þorláksson)