Landbúnaður – atvinnugrein eða lífsstíll?

Ekki er núverandi ríkisstjórnarmeirihluti fyrr búinn að kaupa Bændahöllina, Hótel Sögu, á fimm milljarða af þrotabúi Bændasamtakanna til að forða þeim frá enn meira falli (kostnaður endar væntanlega í um 20 milljörðum þegar upp verður staðið), en bændaforystan birtist við afgreiðslu fjárlaga og krefst 700 milljóna í stuðning vegna þess að verð á áburði hefur hækkað á heimsmarkaði. Spyrja má hvort það sé verkefni ríkisjóðs að bregðast beint við verðbreytingum á aðföngum fyrirtækja í atvinnulífinu. Svarið við því er vitanlega nei.

Engu að síður virðist íslenskur landbúnaður eiga greiðan aðgang að hirslum ríkissjóðs. Í gildi er risavaxinn búvörusamningur til margra ára. Sá samningur er bölvanlegur fyrir íslenska neytendur. Ætti ekki fullnaðarstuðningur við bændur og íslenskan landbúnað að felast í honum? Nei, ekki aldeilis, ekki þegar landbúnaðurinn á í hlut. Umhverfi hans er verndað og í skjóli ríkisstjórnar þar sem gamaldags framsóknarsjónarmið í landbúnaðarmálum eru ráðandi innan allra þriggja stjórnarflokkanna.

Framsóknarflokkurinn sjálfur er óeðlilega stór í bili og nýtir sér það óspart. Bersýnilega þarf þó ekkert að snúa upp á hendur Vinstri grænna og sjálfstæðismanna til að knýja þá til stuðnings við hömlulaus útgjöld og úrelt landbúnaðarkerfi á kostnað neytenda. Í næstu kosningum fer Framsókn væntanlega niður í eðlilegt fylgi á ný. En á meðan ljómi hins óvænta kosningasigurs glóir og heldur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur við völd ganga bændur á lagið. Nú var krafan 700 milljónir úr ríkissjóði – þær fengust í gegnum fjárlögin sem voru samþykkt í vikunni.

Hvers vegna á íslenska ríkið að borga hækkun á verði aðfanga til einnar atvinnugreinar á Íslandi en ekki annarra? Vitanlega á ríkið alls ekki að borga slíkar hækkanir. Hér er á ferðinni gamalgróin framsóknarmennska sem nútímafólk vonaði að væri liðin undir lok hér á landi – líka innan Framsóknar! En svo virðist ekki vera, sérstaklega ekki eftir úrslit síðustu kosninga. Kannanir sýna raunar að hratt fjarar undan kosningasigri Framsóknar.

Bændur ganga á lagið og krefjast meiri peninga. Gera verður kröfu til forsvarsmanna samtaka bænda um svör við þeirri spurningu hvort þeir vilji að vera atvinnugrein eða lífsstíll? Eru þeir einungis hluti af sögu lands og þjóðar og þar með menningararfur – og þá ekki atvinnuvegur?

Sé svo er heiðarlegast að horfast í augu við staðreyndir og viðurkenna þær.

- Ólafur Arnarson