Flestum finnst okkur mikil prýði að gróðri, ekki síst trjám og myndum vilja hafa mun meiri skóga á Íslandi. Auk fegurðar veita tré og skógar gott skjól fyrir köldum vindum Norður-Atlantshafsins. Ísland þyrfti að vera mun gróðursælla bæði lálendið og hálendið sem er að mestu gróðursnauð eyðimörk.
Gróðurleysið orsakast í megin atriðum af hnattstöðu, tíðum eldgosum, ofbeit og slæmri umgengni um landið í fortíð og nútíð.
Við breytum litlu um hnattstöðuna og eldgosin en við getum stjórnað búfjárbeit og umgengni. Það er í raun fráleitt að lausaganga búfjár skuli enn heimil, jafn skaðleg og hún er. Svo er um 30% meira fé í landinu en þörf er á fyrir innanlandsneyslu, sem fer minnkandi.
Hér stangast á hagsmunir almennings og sérhagsmunir bænda. Þegar svo háttar mætti ætla að hagsmunir almennings væru í fyrirrúmi en svo er aldeilis ekki. Svo furðulegt sem það nú er þá verja margir, ekki síst stjórnmálamennum landsbyggðarinnar sérhagsmuni hinna fáu á kostnað hagsmuna hinna mörgu og dreifðu. Hlutverk stjórnmálanna hlýtur fyrst og fremst að vera að gæta að langtímahagsmunum almennings og landsins en því miður er margt sem glepur.
Það er ekki nóg með að sauðfjárbændur fái nánast frítt spil með að láta búpeninginn naga gróður í landi nágranna, í úthaga og á hálendi, heldur styrkjum við sauðfjárbúskapinn til þess og það hlutfallslega mest af öllum þjóðum heims.
Stuðningur og ávinningur Skattgreiðendum er gert að styðja landbúnaðinn beint um nálægt 15 ma. kr. á ári. Tollvernd landbúnaðarins kostar neytendur auk þess um 25 ma. kr. á ári. Þar af fer um helmingur til bænda og restin til sláturhúsa og vinnslustöðva, sem njóta í raun verndar fyrir erlendri samkeppni. Samtals eru þetta um 40 milljarðar á ári og er þá ekki allt talið, samanber beint og óbeint tjón sem hlýst af gróðureyðingunni, mengun, kostnaður við mótaðgerðir og fleira.
Af styrkjum skattgreiðenda til landbúnaðar fara um 5 ma. kr. til sauðfjárbænda. Þeir eru flestir frístunda-bændur í annarri vinnu, með fáar rollur og minna en 50 bændur munu hafa aðalatvinnu af sauðfjárbúskap.
Meðalsöluverð lambakjöts frá bændum er um 500 kr/kg. Stuðningsgreiðslur skattgreiðenda bæta um 500 kr/kg við og því fá bændur um 1.000 kr. á kg af lambakjöti.
Um 30% af lambakjötsframleiðslunnar er flutt út. Því má segja að skattgreiðendur greiði um 1,5 ma.kr. á ári með útflutningnum (30% af 5 ma.kr.). Þetta gengur auðvitað ekki. Til að koma í veg fyrir þetta ætti, ef þess þarf, að endurkrefja áður veittar stuðningsgreiðslur af útfluttum afurðum.
Öllum þessum stuðningi er að hluta til ætlað að halda byggð í horfinu. Þar með vinnur hann gegn eðlilegri þróun í landinu og skaðar umhverfið á kostnað almennings og sá kostnaður er gríðarlega mikill ef grannt er skoðað.
Mótum nýja stefnu Við þurfum að taka eðlilegri þróun vel og hætta að streitast við að halda úreltum atvinnuháttum á kostnað almennings og umhverfisins. Hvað sauðfjárræktina varðar þarf til dæmis að huga að eftirfarandi:
1. Hætta að borga með útflutningi lambakjöts.
2. Banna lausagöngu búfjár.
3. Hætta að styðja frístunda-bændur, þá sem hafa aðal tekjur sínar af annarri vinnu en landbúnaði.