Lærðu að handera humarinn

Það kennir fjölmargra grasa í jóladagskrá Hringbrautar - og er kvöldið á þriðja degi jóla þar engin undantekning, því auk heimildarþáttar um hina goðsagnakenndu Sonju Zorilla, kvikmyndaþáttinn Hvíta tjaldið og Sögustund er boðið upp á kennslustund í handeringu humars í kvöld.

Humarréttir af öllu tagi eru að verða æ vinsælli á hátíðarborðum lamdsmanna, ekki síst um jól og áramót, en almennt er sjávarfang að sækja í sig veðrið sem hátíðarréttur um þetta leyti árs.

Í þættinum Lífið er saltfiskur í kvöld klukkan 21:30 mun fiskikóngurinn Kristján Berg kenna landsmönnum að gera humarsúpu af ljúffengustu sort, en óhætt er að segja að þar haldi fagmaður um sleifina sem kunni réttu handtökin frá grunni.

Nýir þættir Kristjáns, Lífið er saltfiskur, verða svo framvegis á dagskrá Hringbrautar á nýju ári, en þar mun hann fjalla um allt sem lýtur að sjávarfangi og meðferð þess - og er óhætt að segja að þar fari fiskimaður á faraldsfæti.