Stóra fréttin í nýrri skoðanakönnun MMR sem birt var í dag er að Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að tapa og er nú kominn niður í 18.3% fylgi. Áður mældist fylgi flokksins lægst 19.1% og héldu þá margir að þar með væri botninum náð. Svo virðist ekki vera. Flokkurinn er nú kominn niður í helmings fylgi á við það sem var í Alþingiskosningunum 2007 en þá naut Sjálfstæðisflokkurinn stuðnings 37% kjósenda. Geir Haarde var þá formaður. Bjarni Benediktsson tók svo við formennsku. Á hans vakt hefur fylgi flokksins minnkað um helming sé miðað við þessa nýju skoðanakönnun MMR.
Samkvæmt könnun MMR næði Sjálfstæðisflokkurinn einungis 13 þingmönnum og tapaði 3 sætum. Samfylkingin fengi 14.8% fylgi og 10 þingmenn kjörna. Bætti við sig 3 sætum. Viðreisn bætir einnig við sig 3 þingsætum og fengi 7 menn kjörna. Píratar bæta við sig 2 þingsætum eins og Miðflokkurinn sem reyndar fékk 2 þingmenn frá Flokki fólksins fyrr á þessu ári. Miðflokkurinn tapar fylgi frá síðustu könnun. Vinstri græn fá 12.8% fylgi samkvæmt könnun MMR sem gæfi þeim 8 þingsæti í stað 11 þingsæta í kosningunum 2017. Framsóknarflokkur stæði í stað frá kosningunum og fengi 8 menn kjörna.
Flokkur fólksins félli út af þingi og missti því þau 4 þingsæti sem flokkurinn náði í síðustu kosningum.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju samtals 29 þingsæti og tapa 6 mönnum frá kosningunum. Þar með væri stjórnin kolfallin eins og reyndar hefur verið niðurstaða allra skoðanakannana síðustu 6 til 8 mánuðina.
Því er orðið mjög áleitið hvort núverandi ríkisstjórn getur áfram þrjóskast við að halda völdum rúin trausti eins og hún er. Katrín Jakobsdóttir verður nú að hugsa sinn gang og meta framtíð þessarar ríkisstjórnar sem hefur minnihluta kjósenda á bak við sig.