Viðreisn getur litið á það sem mikið hrós að kyrrstöðuöflin í landinu leggi höfuðáherslu á að Viðreisn verði ekki í næstu ríkisstjórn, hvað sem öðru líður.
Framsókn hafnaði því alfarið að Viðreisn kæmi að stjórnarmyndunarviðræðum miðju-og vinstriflokka um síðustu helgi. Svo sleit Framsókn viðræðunum með þeirri afsökun að einungis hafi verið um eins þingmanns meirihluta að ræða. Með tilkomu Viðreisnar hefði meirihlutinn orðið fimm þingmenn.
Framsóknarflokkurinn vill ekkert af Viðreisn vita vegna þess að flokkurinn boðar kerfisbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði. Framsókn lítur á það sem köllun sína og meginhlutverk að standa vörð um sérhagsmuni sægreifa og að verja styrkjasukkið í landbúnaði gegn hagsmunum skattgreiðenda og neytenda. Þá vill Framsókn engar breytingar á stjórnarskránni, hann vill halda í íslenska krónu fram í rauðan dauðann, þó hún sé minnsta og brothættasta myntkerfi í heimi. Framsókn aðhyllist einangrunarhyggju og þjóðrembupólitík. Flokkurinn er hræddur við útlendinga, einkum þá sem tilheyra ESB. Viðreisn er opin fyrir flestu því sem Framsókn vill ekki breyta. Framsókn vill tryggja kyrrstöðu á Íslandi.
Óhætt er að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn aðhyllist í meginatriðum sömu kyrrstöðustefnu og Framsókn. Morgunblaðið stendur heilshugar á bak við stefnu Framsóknar. Áhrifamestu kyrrstöðuöflin á Íslandi eru núna Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið.
Kyrrstöðuöflin vinna nú að því að mynda ríkisstjórn sem mun ekki gera neinar breytingar. Flokkar sem berjast fyrir umbótum, eins og Viðreisn gerir, mega hvergi koma nærri. Það þarf að tryggja kyrrstöðu í anda Framsóknar. Sjálfstæðisflokkurinn er til í slíkt samstarf því hann er hættur að vera framsýnn umbótaflokkur eins og hann var á síðu öld. Sjálfstæðisflokkurinn stendur varðstöðu um kerfið, óbreytt kerfi og aukin ríkisafskipti. Áður boðaði flokkurinn “báknið burt” en hefur smám saman færst yfir í hið gagnstæða; “báknið kjurrt”.
Ef hægt er að ráða Viðreisn heilt, þá mætti hvetja flokkinn til að standa utan næstu ríkisstjórnar, einbeita sér að sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári og efla flokkinn til frekari dáða í framtíðinni.
Flokkur með umbótastefnu og hugsjónir Viðreisnar á fullt erindi við þjóðina og getur vænst fylgis 15 til 20% kjósenda.
Rtá.