Kynlíf eins og skólahreysti!

 

Út er komin bókin Sölvasaga unglings eftir Arnar Már Arngrímsson kennara við Menntaskólann á Akureyri. Sögur gefa út.

Hringbraut lét fotvitni á að vita hvað fékk menntaskólakennarann til að takast á við þessa glímu, því útkoman er að mati þess sem hér skrifar um margt áhugaverð.

 Hver var ástæða þess að þú skrifaðir þessa bók?

Einfaldlega mjög sterk löngun. Bæði til að segja þessa sögu og komast að því hvort ég hefði þetta í mér. Ég komst að því að ég er einbeittari og þrjóskari en ég hélt.

 Tók það langan tíma?

Þetta var þriggja ára ferli með endalausum villigötum og útúrdúrum. Ég skrifaði til dæmis langan viðauka þar sem sagan er sögð á nýjan leik sem Íslendingaþáttur. Ég skemmti mér konunglega en þeir sem lásu yfir þótti þetta bara skrýtið. Ég læt þáttinn kannski fylgja með á 10 ára afmæli bókarinnar: „stútfull af aukaefni“.

 Hvað var erfiðast í ferlinu?

Það var erfitt að ná eyrum útgefenda og síðan gat verið snúið að finna tíma. Ég vil helst skrifa á milli 8-12 á morgnana og þá var ég oftast við kennslu. Síðan hafði ég vit á því að minnka við mig örlítið í vinnu og þá fór ég að geta nýtt morgun og morgun.

 Þú virðist gera þér far um að líkja eftir tungutaki og hugarheimi ungmenna - byggirðu þennan sagnaheim þinn á reynslu þinni sem kennari við menntaskóla?

Eflaust að einhverju leyti en ég stóð ekki í neinni heimildarvinnu. Ég býst við að yfirlestur þúsunda ritgerða og verkefna á síðustu 10 árum hafi ekki skemmt fyrir en ég geri enga tilraun til að herma eftir unglingamáli.

Bókin er nokkuð stríð að mínu mati á köflum - var þér mikið niðri fyrir við ritun hennar?

„Waiting so long, I‘ve been waiting so long. Look back in anger, driven by the night.“ (David Bowie).

Ég var oft með Joy Division og Sonic Youth í eyrunum, en líka Beach Boys og Smokey Robinson. Þarna er sorti en líka birta, rétt eins og ég minnist unglingsárana; endalausar sveiflur ljóss og myrkurs. Eilíft drama.

Þú hafðir fyrir útkomu bókarinnar látið að þér kveða með pistlaskrifum þar sem þemað er kannski einum þræði að við megum ekki láta börn og unglinga afskekkt - en af bókinni verður sumpart ekki annað ráðið en að ungmenni verða að fá sinn frið - er jafnvægi hlutverks foreldra vandfundið þegar kemur að uppeldi?

Hér áður fyrr gat samfélagið með einhverjum hætti haft áhrif á afþreyingu krakkanna. Það voru bækur og hugmyndir í loftinu og margt af því var nánast uppbyggilegt. Mín kynslóð greip það sem hendi var næst, hvort sem það var Ekkert mál, Christiane F, Krossinn og hnífsblaðið, Ævisaga Abraham Lincoln, Morgan Kane eða Samúel. Það er auðvelt að hæðast að þessu viðhorfi en þrátt fyrir að Netið bjóði upp á alla þekkingu heimsins þá leggjast menn í sortir. Vandamálið er hvað þetta efni er skelfilega gott, Breaking Bad, Sopranos, The Wire, og South Park, en hversu mikið kemur þetta okkur við og að gagni? Það er allavega ljóst að afþreyingin er nánast öll á ensku og frá Bandaríkjunum og við neytum hennar 10 tíma á dag.

Það eru býsna berorðar runk- og draumóralýsingar í bókinni - hefur bókin sjokkerað lesendur?

Ég skal ekki segja. Aldurshópurinn 15-20 er ekki byrjaður að lesa bókina. Ég hef reyndar verið að lesa töluvert fyrir 9. og 10. bekk og ég verð að viðurkenna að sumt hentar ekki til upplestrar.

Þú hefur sem kennari og rithöfundur augljósar áhyggjur af klámvæðingunni - hvers vegna?

Af því að hún er mannfjandsamleg og fjandanum lúmskari. Þeirri hugmynd hefur verið lætt að okkur að kynlíf sé eins og skólahreysti; endalausar  upphífingar og armbeygjur – engin fegurð, tilfinning eða sköpun.

Var erfitt að segja söguna án þess að taka séns á að verða stimplaður of mikill afstöðuhöfundur?

Alls ekki. Auðvitað sést hvar samúð mín liggur en sagan ræður og þessar persónur létu ekki troða sér inn í kassa.

Þessar aðstæður, að vera unglingur, firrtur netheimum og sendur út á land - himnaríki eða helvíti?

Það fer eftir aðstæðum, netið er hvorki gott eða slæmt, sveitin ekki heldur. Lykilatriðið er að sinna þessum krökkum og reyna að setja sig í þeirra spor. Sölvi var fastur og það þurfti að koma honum úr þessum aðstæðum sem voru á góðri leið með að brjóta hann niður.

Hvaðan spruttu þér fyrirmyndir við persónusköpun?

Pass.

Stendur til að skrifa meira?

Já, ég var farinn að halda að ég myndi taka Tryggva Emilson á þetta og gefa út mína fyrstu bók 74 ára. Þannig að líklega hef ég meiri tíma en ég bjóst við. Ég á alveg eftir að skrifa um Sölva að elta uppi veiðiþjófa og bruggara á heimasmíðuðu þyrlunni.

Rétt eftir að viðtalið var tekið bárust Arnari þau gleðitíðindi að bók hans hefði verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

(Viðtal: Björn Þorláksson)