Kynlíf án samþykkis = ofbeldi

Ég vann einu sinni með manni sem fór árlega ferð til Tælands til að kaupa sér kynlíf.

Hann stærði sig stundum af þessu í vinnunni, jafnvel með grafískum og ógeðfelldum sögum. Kom að því einn daginn að við vinnufélagarnir báðum manninn að steinhalda kjafti. Hann gæti keypt sér kynlíf og misnotað fátækt fólk þar eystra, fólk sem vegna eigin eymdar gæti ekki séð sér farborða með öðrum hætti en því að veita aðgang að eigin líkama, en það skyldi hann líka vita að þessar sögur hans og viðhorf til þessara mála hefðu kostað hann virðingu okkar.

Í raun brást vinnustaðurinn við með því að útskúfa manninum félagslega. Þetta var löngu fyrir daga fésbókar. Enginn skrifaði status, við bara hjóluðum í manninn, vörðumst með því að hjóla í hann. Í okkar huga var meiðandi að hann skyldi réttlæta breytni sína með því að hann borgaði lífsviðurværi heilu fjölskyldnanna í Tælandi með komum sínum austur.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fylgdist með þætti Sigmundar Ernis Rúnarssonar á Hringbraut í vikunni. Hann fékk tvær konur með ritstjórnarvald til að mæta í þáttinn til að ræða „nauðgunarmálið“, málið sem tók yfir alla fréttatíma og allt pláss samfélagsmiðla dögum saman. Konurnar, Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins og Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri Vikunnar, komu með annað sjónarhorn á málið en flestir karlar sem ég hef séð tjá sig á opinberum vettvangi. Þær ræddu áhrif feðraveldisins og einkum vakti það athygli mína þegar önnur blaðakonan nefndi að undirliggjandi mein í okkar samfélagi væri sú ranghugmynd karla að þeir ættu alltaf rétt á kynlífi. Ef ekki með samþykki, tengdu aðlöðun eða útgeislun, hefðu sumir karlar vanist þeirri hugsun að réttur þeirra til að koma fram vilja sínum skyldi hafinn yfir annað. Tekið var dæmi af fötluðum karli og þeim rökum að hann ætti rétt á kynlífsþjónustu eins og aðrir. Slík rök (órök) væru stundum notuð í umræðu um vændi. Þegar svona hugsun flyti ofan á í heimi hinna ráðandi karla væri erfiðara en ella að bæði taka á nauðgunum eða uppræta vændi.  Ígildi uppgjafar gagnvart þessari skaðlegu hugsun væri að afglæpavæða vændi.

Nú veit enginn hvernig dómstólar munu taka á hryllingnum í Hlíðunum, en vitaskuld segir sig sjálft að ólíklegt má telja að tvær konur, bekkjarsystur, tvær ungar konur í háskólanámi með fangið fullt af framtíð taki það upp hjá sér með skömmu millibili að saka menn um nauðgun. Þótt fordæmi séu fyrir röngum sakargiftum lærði ég í afbrotakúrsi sem ég tók einu sinni í háskóla að svoleiðis atvik teldust frávik en ekki norm. Það er hins vegar enn norm í huga sumra karla að þeir eigi rétt á að fá útrás fyrir fýsnir sínar. Stundum draga hinir sömu karlar upp tælenska seðla. Stundum beita þeir ofbeldi. Stundum fer þetta tvennt saman, stundum eru menn svo heillum horfnir að þeir gorta sig af afrekum sínum, flytja innblásnar ræður um eigið typpi og ævintýrin sem það ratar í, halda fram að typpið eigi þátt í að halda uppi hagkerfum fátækari ríkja.

Reglulega eru gerðar tilraunir til að útvatna umræðuna, þar halda fulltrúar beggja kynja því fram að eymdin eigi við bæði kyn. Það er nú samt þannig að í 90% tilfella geldur aðeins annað kynið fyrir ofbeldi hins. Þess vegna var gott að fá tvær konur í Ritstjóraþáttinn til að ræða nauðgunarmálið. Það kom annað út úr umræðunni en ef tveir týpískir blaðakarlar hefðu rætt málið.

Burtséð frá afdrifum nauðgunarmálsins í Hlíðunum – ekki hins meinta nauðgunarmáls heldur nauðgunarmálsins í Hlíðunum -  er nú lag til að halda þessari umræðu á lofti. Það er nóg að karlar stýri ofbeldinu þótt þeir fái ekki líka að stjórna merkingu orða og beitingu tungumálsins. Það hefur ekkert með það að gera hvort konum var nauðgað eða ekki hvort grunuðu mennirnir tveir verði dæmdir sekir fyrir nauðgun eða ekki. Sú niðurstaða tengist aðeins sönnunargögnum. Á meðan karlar elta eigin ranghugmynd um að þeir eigi rétt á kynlífi, með góðu eða illu, munu konur fara áfram halloka í réttarsölum, en áfram skal barist uns jafnrétti verður náð.

KYNLÍF ÁN SAMÞYKKIS = OFBELDI.

Besta leiðin til að uppræta ofbeldið er að samfélagið sendi gerendum mjög sterk skilaboð eins og við gerðum á vinnustaðnum forðum. Þeir sem hamast á öðrum eiga að skammast sín. Það á enginn rétt á kynlífi með öðru fólki. Ég er sammála þeim málflutningi kvenritstjóranna sem ræddu málið í vikunni.

Það eru karlar sem stýra þeirri umræðu að öllum frásögnum af nauðgunum skuli pakkað inn í „meint“. Kannast einhver við \"meint innbrot\" í fyrirsögn? Hótað er meiðyrðamálum ef nauðgun er ekki „meint“. En það sem samt þannig að sumt gerist þótt ekki sé hægt að færa sönnur á það. Nóg refsing er þegar réttlætið fær ekki framgang, þótt hitt bætist ekki einnig við að þolendur þurfi í ofanálag að upplifa að frásagnir þeirra séu bara meint eitthvað...

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst á Kvikunni á Hringbraut)