Kvíðaskimun dugi ekki ein og sér

Pétur Maack sálfræðingur segir að það sé „merkileg frétt og mikið framfaraskref“ að til standi að skima alla unglinga á landinu fyrir þunglyndi og kvíða. Þar með sé þó aðeins fyrsta skref stigið. Fylgja verði slíkri skimun eftir og það kosti peninga.

„Merkileg frétt og mikið framfaraskref ef rétt verður haldið á málum. Skimun og, eftir atvikum, greining er þó tilgangslaus ef henni fylgir ekki meðferð. Aðgengileg niðurgreidd sálfræðiþjónusta ásamt fullri viðveru á heilsugæslustöðvum verður að fylgja í pakkanum,“ skrifar sálfræðingurinn á fésbók.

Fram hefur komið í Morgunblaðinu að und­an­far­in ár hafi 9. bekk­ing­ar í Breiðholti verið skimaðir fyr­ir kvíða og þung­lyndi og í kjöl­farið hafi sumum þeirra verið boðið á nám­skeið í hug­rænni at­ferl­is­meðferð. Það hafi leitt til þess að til­vís­un­um um grein­ing­ar hafi fækkað um 50%.

Geðheilbrigðismál hafa verið töluvert í umræðunni í vikunni og þá ekki síst vandi ungmenna. Sjálfur hefur Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra látið hafa það eftir sér að geðheilbrigðismál hafi setið á hakanum.