Hann hét Múhameð og var þriggja ára. Hann var stór og sterklega byggður, með hrokkið svart hár, stór dökk augu, dökkt hörund, útlitið benti til þess að hann væri af indverskum uppruna. Þrátt fyrir ungan aldur var hann langelsta barnið á deildinni, öll hin sjö börnin voru aðeins nokkurra daga gömul. Öll áttu þau það sameiginlegt að vera að bíða eftir að komast í hjartaaðgerð vegna alvarlegra hjartagalla.
Múhameð litli var í næsta rúmi við hliðina á drengnum okkar. Hann var sofandi þegar við komum. Skömmu síðar vaknaði hann. Hann opnaði stóru fallegu augun sín, leit í kringum sig, augun fylltust af tárum, skeifa kom á varirnar og síðan byrjaði hann að hágráta. Gráturinn var sár og lýsti mikilli örvæntingu og hræðslu. Hjúkrunarkonurnar tvær sem voru á vakt voru uppteknar við að sinna öðrum börnum, þær litu upp og horfðu þreytulega til hans en höfðu engin tök á að sinna honum. Einu sinni höfðu þær verið fjórar á vakt en nú voru þær alltaf bara tvær, það þurfti víst að skera niður, álagið á þeim var ógurlegt.
Að sitja og hlusta á barn gráta svona tekur á sálina, við reyndum bæði að líta til hans en hann var augljóslega skelfingu lostinn og varð bara hræddari ef við litum til hans. Gráturinn vakti önnur börn og nú byrjuðu þau að gráta líka. Öll grétu þau með þessum sára rómi sem lýsti örvæntingu og hræðslu. Eftir einhvern tíma sem ómögulegt að að átta sig á við þessar aðstæður kom dökkleitur maður inn á deildina, hann flýtti sér að rúmi Múhameðs og faðmaði hann. Múhameð róaðist. Við gengum á milli hinna barnanna og settum snuðin upp í þau. Hjúkrunarkonurnar litu til okkar og kinkuðu kolli með þakklæti í svipnum.
Loksins róuðust börnin. Dökkleiti maðurinn sat á rúmstokknum hjá Múhameð og talaði til hans sefandi rómi, \"pabbi þurfti bara á klósettið, pabbi mun aldrei yfirgefa drenginn sinn, það er allt í lagi\". Við tókum eftir því að Múhameð litli var tengdur við súrefniskút. Faðir hans sagði okkur að Múhameð væri búinn að vera þarna á sjúkrahúsinu síðan að hann fæddist.
Svona liðu tveir dagar, faðir Múhameðs vék aldrei frá honum nema þegar hann var viss um að Múhameð væri örugglega sofandi. Ef að Múhameð vaknaði meðan að faðir hans skaust frá til að ná sér í mat eða fara á salernið þá trylltist Múhameð. Sama gerðist þegar læknar komu til að skoða Múhameð. Hann vissi að þessum skoðunum fylgdi sársauki, það þurfti að taka blóðsýni, skipta um nálar, troða pípunum úr súrefnistækinu lengra upp í nefið, sefandi rödd föðursins virkaði ekkert við þessar aðstæður. Skelfing Múhameðs var einlæg og svo skiljanleg.
Síðan skildu leiðir, drengurinn okkar fór í hjartaaðgerð og Múhameð sömuleiðis. Við tók tíu daga bið á gjörgæslu, sú bið var eins og að hanga á bjargbrún og minna sig stöðugt á að líta ekki niður vegna þess að þá geti maður misst takið.
Að lokum endaði martröðin og vonin kviknaði á ný, drengurinn okkar fór af gjörgæslu og inn á næstu deild. Þegar við komum þangað sáum við að Múhameð var mættur þar líka ásamt föður sínum. Faðirinn tók okkur vinalega og Múhameð horfði á okkur, það hafði hann ekki gert áður. Hann var enn tengdur við súrefnistækið.
Á þessari deild voru börn sem búin voru að fara í hjartaaðgerð, sum voru fljótari að ná sér en önnur og þess vegna voru talsverðar breytingar á íbúum deildarinnar næstu tvær vikurnar, drengurinn okkar og Múhameð voru þó þarna enn. Alvarlegar sýkingar höfðu komið upp við aðgerðina á drengnum okkar og erfiðlega gekk að ráða niðurlögum þeirra.
Eftir því sem dagarnir liðu tók ég eftir því að Múhameð horfði oft til mín þegar hann hélt að ég sæi ekki til. Sennilega hefur honum fundist ég forvitnilegur þar sem að ég var eini karlmaðurinn sem að var þarna fyrir utan föður hans og læknana. Smátt og smátt fór ég að horfa til hans líka og þá snéri hann sér undan. Úr þessu þróaðist leikur okkar í milli, hann horfði, ég horfði til baka og þá snéri hann sér undan. En Múhameð hafði allan vara á sér, ef ég horfði of lengi þá var leikurinn búinn.
Lífið á deildinni var eins og tíminn stæði í stað. Við vorum mætt um klukkan sex á morgnanna og sátum svo við rúm drengsins okkar fram að miðnætti. Af og til fór annað hvort okkar og keypti einhvern mat. Læknarnir komu stofugang einu sinni á dag, hjúkrunarkonurnar komu og gáfu börnunum lyf á þriggja tíma fresti. Annars gerðist ekkert.
Fyrr en einn daginn. Þá var hurðinni á deildinni sparkað upp í orðsins fyllst merkingu og inn þusti skari af börnum á grunnskólaaldri sem öll voru eins og Múhameð. Múhameð ljómaði, lyfti báðum höndum upp eins og hann væri að fagna marki. Hópurinn, fimm börn, hrúgaðist upp í rúmið hjá Múhameð með miklum gleðilátum. Ósjálfrátt brostum við bæði út að eyrum, það var fyrsta bros okkar eftir að drengurinn okkar fæddist.
Faðir Múhameðs gekk fram á ganginn, í gegnum glerið á hurðinni sáum við að þar mætti hann konu. Þau föðmuðust innilega, síðan horfðust þau í augu og ég sá að faðir Múhameðs hristi höfuðið , konan hallaði sér þá upp að honum og axlir hennar hristust. Síðan sleppti hún takinu, þurrkaði sér í framan og kom inn á deildina með bros á vör. Múhameð grét af gleði þegar hann sá konuna.
Allan þennan tíma sem við höfðum eytt með Múhameð og föður hans höfðum við aldrei hugsað til þess að þeir væru hluti af stærri fjölskyldu. Þessi dagur varð dagur gleðinnar, þessi fallega fjölskylda naut þess innilega að eiga þessar fáu stundir saman. Við sátum bæði og horfðum á og glöddumst innilega með þeim. En síðan kom kveðjustundin, Múhameð lá lengi í fanginu á mömmu sinni og grét, síðan kvöddu öll systkinin hann, hvert á eftir öðru með þéttu faðmlagi. Þessi kveðjustund var átakanleg, við grétum bæði með þeim.
Viku seinna útskrifaðist drengurinn okkar. Múhameð var sofandi þegar við fórum. Við stóðum lengi við rúmgaflinn hans og horfðum á hann, við vissum bæði að við myndum aldrei sjá hann aftur. Við vissum líka að við myndum aldrei gleyma honum.