Ef marka má viðtöl við forsvarsmann Hvals hf., Kristján Loftsson, stefnir hið umdeilda fyrirtæki, sem hann er kenndur við, á að hefja að nýju hvaladráp á komandi sumri. Almennt hafði verið talið að fyrirtækið Hvalur hf. sem á sjötíu ára gamla hvalbáta, hefði hætt þvermóðskulegri starfsemi sinni á sviði hvaladráps. Mikið hefur verið deilt um hvalveiðar á liðnum árum enda er almennt talið að um óþolandi dýraníð sé að ræða. Stórhvalir hafa ekki verið drepnir í nokkur ár.
Ef marka má samþykktir Vinstri grænna, sem eiga aðild að ríkisstjórn, er flokkurinn á móti hvalveiðum. Hingað til hefur reyndar ekki verið mikið gert með markaða stefnu þess flokks eins og til dæmis það að flokkurinn sé á móti aðild að NATO en formaður flokklsins er þessa dagana talsmaður þjóðarinnar og vildarvinur forystu NATO.
Forsætisráðherrann, og formaður flokksins sem er á móti NATO, sættir sig við að vera núna NATO-KATA. Ef til vill kippir hún sér ekkert upp við að verða á komandi sumri kennd við hvaladráp í umboði Vinstri grænna –umhverfisverndarflokksins.
Um allan heim er vaxandi fyrirlitning á hvaladrápi. Sú var tíð að þjóðina vantaði fitu og þá var dráp af þessu tagi réttlætt með því. Nú er því ekki til að dreifa.
Kristján Loftsson segir í viðtali við málgagn sægreifanna að 150 manns fái vinnu í sumar vegna hvalveiða. En það afsakar ekki neitt vegna þess að okkur vantar þúsundir manna til starfa í ferðaþjónustu og iðnaði. Engin þörf er á atvinnubótavinnu fyrir nokkra gamla karla. Næga aðra vinnu er að fá.
Ekki má heldur gleyma því hve umræða um ómanneskjulegt hvaladráp fer hratt um alþjóðlega fjölmiðla og spillir ímynd Íslands. Sú umræða skemmir fyrir flugi og ferðaþjónustu sem afla þjóðinni nú mestra gjaldeyristekna allra atvinnugreina. Til þess verður að taka tillit, burtséð frá því hvað sá gamli þulur, Kristján Loftsson, segir.
Hvaladráp er umhverfismál, dýraverndunarmál og efnahagsmál vegna þess skaða sem þessi starfsemi veldur útflutningsatvinnugreinum þjóðarinnar.
Hvalveiðar verður að stöðva. Hvað segir nú okkar skeleggi umhverfisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson?
- Ólafur Arnarson