Það eru að verða straumhvörf í viðhorfi Íslendinga til óspilltrar náttúru - og kannski má það að einhverju leyti þakka útlendingnum sem vakti okkur til vitundar um þau sannindi eftir hrun að óraskað land er verðmætara en raskað land.
Þetta segir athafnamaðurinn Sigurður Gísli Pálmason sem er gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamáli á Hringbraut í kvöld, en hann stendur fyrir ráðstefnu í Veröld, húsi Vigdísar á morgun um samband manns og náttúru, en Sigurður Gísli segir þörf á vakningu í þeim efnum á Íslandi; það eigi ekki að skipta Íslandi í annars vegar þjóðgarða og hinsvegar manngerð svæði heldur eigi hvorutveggja að leika saman, maðurinn sé hluti af náttúrunni og ekki yfir hana hafinn - og hann eigi að lifa og starfa innan óspilltrar víðáttu rétt eins og hann geri utan hennar; það sé varhugavert að skipta landinu að þessu leyti í tvennt eins og gert hafi verið alltof lengi hér á landi.
Viðtalið við Sigurð Gísla er persónulegt og einlægt, en hann hefur fram að þessu ekki gefið færi á sér í hispurslaus viðtöl um eigin persónu og uppeldið í foreldrahúsum. En það gerir hann að þessu sinni svo um munar, kveðst að mörgu leyti líkur föður sínum, Pálma Jónssyni, stofnanda Hagkaupa, Skagfirðingum sem risið hafi upp gegn veldi Sambandsins og ráðist gegn ægivaldi stórkaupamanna í Reykjavík, en faðir hans hafi forðast fjölmiðla eins og heitan eldinn - og sjálfur sé hann prívatpersóna, vilji ekki láta of mikið bera á sér.
Hann kveðst fyrst muna eftir sér sem sonur einstæðrar konu á Óðinsgötunni í Reykjavík, en foreldrar hans tóku ekki saman fyrr en hann var fimm ára gamall - og lengi vel, eftir að þau hófu búskap, hafi verið töluvert basl á þeim, ólíkt því sem margir skildu ætla - og í því efni rifjar hann upp rifrildi á milli mömmu hans og pabba á heimilinu þar sem frúin kvartaði hástofum yfir því að hafa ekki fengið nýja kápu svo árum skipti. Og heimilið hafi verið hefðbundinn, sami matur á borðum alla mánudaga og svo koll af kolli þar til lyktin af saltfisknum og skötunni í sama potti á laugardögum lék um húsið.
Og það er kostulegt að hlusta á Sigurð Gísla lýsa viðureign föður síns við samtryggingarkerfið í Reykjavík í kringum 1960 þar sem heildsalar og bankastjórar lögðu heilu björgin í götu Pálma sem lék á hverfið - og fékk almenning í lið með sér með þeim afleiðingum að einokun á verðlagningu matvæla var rofin.
Mannamál byrjar klukkan 20:30 í kvöld. Smeltu hér til að sjá brot úr þættinum.