Já, kunna hótelstjórar að reikna? Svarið er eflaust; já. Allavega flestir þeirra. Kristófer Oliversson, forstjóri Center Hotels, hefur reiknað og reiknað og niðurstaðan hans er sú að ætla má að rösklega 20 milljarðar króna fari um svarta hagkerfið vegna gististarfsemi í miðborg Reykjavíkur. Í 101 Reykjavík. Já, bara vegna þessa.
„Viðmið Kristófers er að um 6.000 herbergi séu í þeim 3.000 íbúðum í miðborginni sem eru leigðar út. Með áætlaðri nýtingu skili það 1,5 milljónum gistinátta sem ættu að gefa 21,5 milljarða króna í heildartekjur. Starfsemi þessari ættu að fylgja eðlilegar greiðslur svo sem virðisaukaskattur, tekjuskattur, tryggingagjald, fastaeignaskattar og fleira slíkt. Þessir peningar skili sér ekki í sameiginlega sjóði nema að hluta.“
En svo er ekki, það er megin niðurstaða í reikningum Kristófers. Það sem hér er er byggt að viðtali við Kristófer í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta er orðið umfangsmikið neðanjarðarhagkerfi sem mokar inn peningum,“ segir Kristófer sem hefur áætlað þessar tölur með aðstoð endurskoðanda. Hann vill að tekið verði á þessum vanda og tökum náð á óskráðri starfsemi. Stórhækkun gistináttagjalds til að fjármagna uppbyggingu grunnþjónustu í landinu vegna fjölgunar ferðmanna sé vafasöm hugmynd.
„Við höfum sleppt fram af okkur beislinu og því miður hafa menn svolítið horft á þetta með blinda auganu,“ segir hann og vitnar til viðtals Þjóðbrautar við Má Guðmundsson seðlabankastjóri. Kristófer bendir réttilega á að Már sagði að það væri í höndum ferðaþjónustunnar og stjórnvalda að taka á því sem miður fer.
Kristófer bindur vonir við að tekið verði á málum um áramótin, þegar ný lög taka gildi. Bendir á að þar sé gert ráð fyrir að leyfisnúmer séu birt í öllum auglýsingum. Stjórnvöld geti auðveldlega gengið að þeim sem það geri ekki. „Það verður að fylgja þessum lögum eftir,“ segir hann.
Kristófer er gagnrýninn á hugmyndir um að stórhækka gistináttagjald til að byggja upp innviði vegna fjölgunar ferðafólks. Bendir hann á að hótelin sem beri þennan skatt séu aðeins lítill kimi í atvinnulífinu og hugmyndir um að láta þessar 1.223 kennitölur byggja upp innviði landsins, fjármagna sveitarfélög og greiða í byggðasjóð séu algerlega óraunhæfar. Samkeppnisstaðan sé þegar mjög skökk og ef leggja eigi nýja skatta á ferðaþjónustuna þurfi að ná til fleiri aðila en löglega rekinna gististaða.
Þarna kemur afar knýjandi spurning. Ef þeir sem starfa í svarta hagkerfinu, en þiggja endalaust úr hinu eðlilega hagkerfi, borga ekki skatta einsog þeim ber, hver gerir það þá?
Jú, við hin.