Það er mikil gerjun í þjóðarvitundinni. Skoðanakannanir mæla gjá milli almennings og pólitískt kjörinna fulltrúa löggjafarsamkundunnar. Óánægja er rót breytinga. Verður að teljast líklegt að nýir flokkar muni eiga þess kost að annað hvort stóreflast í næstu kosningum eða hasla sér völl sem þingflokkar í fyrsta skipti í sögunni.
Viðreisn er í hópi hinna nýju stjórnmálaafla. Í frétt um helstu stefnumál Viðreisnar segir Benedikt Jóhannesson, forsvarsmaður Viðreisnar, að almannahagsmunir umfram sérhagsmuni skuli vera hinn rauði þráður komandi stjórnmála. Tryggja þurfi hagsmuni ungs fólks og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja með því að lækka vexti og verðbólgu til samræmis við nágrannalönd. „Það verður ekki gert nema með því að taka upp annan gjaldmiðil,“ segir Benedikt.
Viðreisn hefur þá sérstöðu meðal íslenskra hægri manna að vilja ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og bera aðildarsamning undir þjóðina. Sérstaða Íslendinga miðað við nágrannaþjóðir snýr að því að hér hafa hægri menn verið mest áberandi í hópi andstæðinga aðildar að ESB. Í nágrannaríkjum eru andstæðingar við ESB einkum vinstri menn. Þrátt fyrir allt markaðsfrelsið, stöðugri efnahagsstefnu, mun lægri vexti og margs konar annars konar frelsi sem fylgir ESB-aðild hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið vörð um hagsmuni íslenskrar útgerðar, hugsanlega umfram almannahagsmuni. Það er líka alltaf dálítið krúttlegt þegar hægri menn nota það sem mótrök gegn ESB að atvinnuleysi gæti farið upp með inngöngu. Krúttlegt í ljósi þess að ein helstu einkennisorð hægri stefnunnar eru að langflestir ráði eigin örlögum sjálfir. Þeir skapi sér tækifæri einir og óstuddir, bara ef frelsið er nægt! Atvinnurök eru vitaskuld mikilvægt hagsmunamál fyrir athafnasama íslenska þjóðarsál en að keyra á ótta um að aukið frelsi myndi hafa í för með sér aukið atvinnuleysi hefur fremur verið sótt í smiðju sósíalista en \"sannra\" frjálshyggjumanna.
Viðreisn fær plús fyrir málefnalega umræðu og þá ekki síst að hamra á grundvallaratriði allra góðra stjórnmála; að almannahagsmunir séu teknir fram yfir sérhagsmuni. Um það snýst aðild að ESB í huga almennings. Menn eru enn ósammála um hvor leiðin verði til þess að annað sé hinu ofar. Um það verður rifist uns þjóðin fær að greiða atkvæði um næst skref.
Jafnréttissinnar gætu þó fundið einn snöggan blett á helstu stefnumálum Viðreisnar. Um jafnlaunavottun í stærri fyrirtækjum segir Benedikt: „Sennilega mun það [jafnlaunavottun, innskot pistlahöfundar] gerast af sjálfu sér, því að fólk mun ekki vilja skipta við fyrirtæki sem ekki standast slíka skoðun.“
Því miður segir saga jafnréttisbaráttu hér á landi sem og annars staðar, að fá framfaraskref sem jafna misrétti kynjanna koma sjálfkrafa á silfurfati. Það þarf að berjast fyrir þeim flestum, stundum með kvótum. Frelsi er því ekki alfa og ómega allra jákvæðra þátta í samfélaginu, einkum ef engin ábyrgð fylgir því. Stundum þarf hið opinbera að marka stefnu með löggjöf, stýringu og jafnvel óvinsælasta orði hins tryllta íslenska frelsisdraums; forræðishyggju.
Alveg burtséð frá ESB eða ekki...