Á Hellissandi á Snæfellsnesi er að finna enn eitt krúndjásnið í veitingahúsaflórunni þar sem hágæða sælkeramatur er borinn fram og eldaður af natni og ástríðu. Hér er um að ræða veitingastaðinn Viðvík sem er fallegur og hlýlegur fjölskyldurekin veitingastaður með stórbrotið útsýni en við blasir Snæfellsjökull, Breiðafjörðinn og Krossavík sem lætur engan ósnortinn. Viðvík stendur í fallegu nýuppgerðu húsi við þjóðveginn og er mikið augnayndi. Húsið var byggt árið 1942 og á sér sögu.
Veitingastaðurinn stendur á fallegum stað í túnfætinum við Snæfellsjökul. Húsið er fallegt og jarðlitir í forgrunni sem tónir vel við umhverfið.
Unga parið Gils Þorri Sigurðsson og Aníta Rut Aðalbjargardóttir eiga og reka veitingastaðinn Viðvík og leggja allan sinn metnað og ást í staðinn. Gils Þorri er menntaður matreiðslumaður og útskrifaðist með sveinspróf frá Gallery Restaurant á Hótel Holt árið 2014 og Aníta Rut er viðskiptafræðingur. Þau eru einstaklega samheldin og láta drauma sína rætast með framkvæmdagleðinni og ástinni. Sjöfn Þórðar heimsækir unga parið á Viðvík og fær innsýn í tilurð staðarins, matreiðsluna og fær jafnframt að skyggnast inn í eldhúsið þar sem leyndardómar matreiðslumannsins fara fram í þættinum Matur og Heimili í kvöld.
Tilurðin bak Viðvík ber keim af ástarsögu og hvernig hjartað leitar oftar en ekki til heimahaganna. „Hugmyndin kom fyrst upp árið 2016 þegar Gils var fluttur heim á Hellissand til að fara á sjóinn með pabba sínum. Það hafði alltaf blundað í Gils að opna veitingastað á heimaslóðum eftir að hann útskrifaðist og mamma hans ýtti vel á eftir okkur að flytja alveg vestur og byrja með okkar eigin rekstur og það var þá sem leitin að húsnæði hófst fyrir veitingastaðinn. Viðvík varð fyrir valinu sem var gamall sveitabær í upprunalegu ástandi en staðsettur á Hellissandi og þaðan kemur nafnið. Við ákváðum að halda í nafnið á gamla bænum sem veitingastaðurinn er staðsettur í. En staðsetning hússins er það sem heillaði okkur hvað mest þar sem útsýnið er alveg einstakt yfir Breiðafjörðinn og upp á Snæfellsjökul.“segir Aníta Rut og nýtur sín til fulls að taka á móti matargestum í þessum umhverfi.
Þegar kemur að því að setja saman matseðilinn er metnaðurinn og fagmennskan í fyrirrúmi og sérstaða staðarins er skýr. „Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á gæði hráefna og framsetningu. Matseðillinn okkar er lítill og hnitmiðaður en nostrað er við hvern og einasta rétt. Matseðlinum breytum við á hverju sumri til að hafa fjölbreytileika. Nýjast á matseðlinum hjá okkur er sushi og hefur það slegið rækilega í gegn. Við byrjuðum fyrst með sushi sumarið 2020 og má eiginlega segja að við fáum ekki að taka það af matseðlinum héðan í frá, það er svo vinsælt,“segja þau Aníta Rut og Gils Þorri og eru spennt fyrir komandi sumri.
Meira um matarástríðuna sem blómstrar á Viðvík á Hellissandi í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.