Samfylkingin hefur stuðning 31 prósents kjósenda samkvæmt nýrri Gallup könnun og fengi 21 þingmann kjörinn ef kosið yrði núna. Samanlagður þingmannafjöldi ríkisstjórnarflokkanna er 19 þingmenn, færri en Samfylkingin ein fengi ef marka má þessa nýju könnun sem gerð var í marsmánuði.
Gert var ráð fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir réttu hlut sinn í síðasta mánuði vegna þess að peningum hefur beinlínis verið mokað út úr ríkissjóði að undanförnu, meðal annars í kjölfar kjarasamninga og vegna uppkaupa á eignum íbúa Grindavíkur. Ráðherrar hafa reynt að eigna sér „heiðurinn“ af þessu og vænst þess að fylgið rétti úr kútnum. Það gerðist hins vegar ekki í mánuðinum og sýnir hve djúpt þessi ríkisstjórn er sokkin.
Vinstri græn sem voru rétt fyrir neðan fimm prósenta markið fyrir mánuði mælast nú með 5,6 prósent sem rétt dugar til að geta fengið fulltrúa kjörna á þing. Flokkurinn fengi þrjá þingmenn samkvæmt könnuninni. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, hverfur nú af vettvangi stjórnmálanna og gefur kost á sér í forsetakjöri. Stuðningur við flokk hennar er þannig 5,6 prósent þegar hún yfirgefur hið sökkvandi fley.
Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð fyrir tæpum sjö árum hafði VG stuðning 17 prósenta og var með 11 þingmenn. Fylgi flokksins fór niður í 12 prósent í kosningunum 2021 og þingmannafjöldinn var þá átta þingmenn. Þegar Katrín yfirgefur flokkinn er fylgið, samkvæmt þessari stóru könnun Gallups, 5,6 prósent og þingmennirnir þrír. Þetta er arfleifðin sem Katrín Jakobsdóttir skilur eftir sig þegar hún leggur á flótta og reynir við forsetaembættið. Í þeim kosningum verður ekki á vísan að róa.
Sjálfstæðisflokkurinn færi niður í 18 prósent fylgi sem gæfi flokknum einungis 12 þingmenn sem væri hið minnsta í sögunni. Miðflokkurinn heldur 13 prósenta fylgi sínu á meðan Framsókn lækkar milli kannana og er komin niður í sjö prósent og fjóra þingmenn. Framsókn er nú með 13 þingmenn þannig að um algert hrun er að ræða.
Samfylkingin styrkir enn stöðu sína og bætir stöðugt við sig fylgi á milli kannana. Ljóst er að Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, er sá stjórnmálaleiðtogi sem þjóðin vill að taki við forystu. Hún ber nú höfuð og herðar yfir aðra forystumenn íslenskra stjórnmálaflokka og hlýtur að mynda næstu ríkisstjórn verði þróunin með svipuðum hætti fram að alþingiskosningum sem væntanlega verða annað hvort næsta haust eða vorið 2025. Hún er greinilega að gera allt rétt á meðan flestir aðrir forystumenn flokka virðast þreifa fyrir sér í myrkri.
Furðu vekur hve lélegur árangur mælist hjá stjórnarandstöðuflokkunum Viðreisn, Pírötum og Flokki fólksins sem mælast með sex til átta prósenta fylgi í könnun Gallups. Þrátt fyrir fylgishrun ríkisstjórnarflokkanna virðist þessum flokkum ekki takast að laða til sín kjósendur eins og hlyti að teljast eðlilegt við þær aðstæður sem nú ríkja. Forystumenn þessara flokka hljóta að hugsa sín ráð og freista þess að svara þeirri áleitnu spurningu hvers vegna þeir ná ekki til kjósenda eins og Samfylkingunni virðist vera að takast.
Verði úrslit næstu kosninga í samræmi við þessa nýjustu stóru skoðanakönnun Gallups er spurningin einungis sú hvaða flokka Samfylkingin velur sér til samstarfs. Kristrún mun þá hafa öll ráð í hendi sér og getur skipað öðrum að sitja og standa að sínum geðþótta. Slík er staðan alla vega núna.
Með brotthvarfi Katrínar Jakobsdóttur úr ríkisstjórninni má ætla að vandi hennar muni einungis aukast. Katrín hefur gegnt hlutverki sáttasemjara milli stjórnarflokkanna og verið öflugasti stjórnmálamaðurinn í Vinstri grænum. Flokkur hennar verður næsta veglaus að henni genginni, enda engum öflugum forystumönnum þar til að dreifa, og hæglega gæti það gerst að Vinstri græn fengju engan þingmann kjörinn í næstu kosningum.
Það yrði þá saga til næsta bæjar enda einsdæmi að flokkur fyrrum forsætisráðherra þurrkist út. Víst er að þá gætu fallið mörg krókódílatár.
– Ólafur Arnarson