Kristrún gerði hreint fyrir sínum dyrum og gæti fljótlega orðið formaður Samfylkingar

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingar, kom fram í Silfrinu í morgun og gerði fulla grein fyrir persónulegum hlutabréfaviðskiptum sínum á liðnum árum. Ljóst má vera að ekkert óeðlilegt var þar á ferðinni og hún svaraði öllum spurningum greiðlega.
Nú hefur hún gert hreint fyrir sínum dyrum en skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins tókst að gera hana tortryggilega rétt fyrir kosningar og það skaðaði flokk hennar. Kristrún hefði átt að svara strax með sama hætti og hún gerði í dag, án efa lætur hún skrímsladeildina ekki aftur koma sér að óvörum. Hún er reynslunni ríkari og málið er úr sögunni.
Kristrún getur þá óáreitt snúið sér að stjórnmálunum, sem er gott, enda er hún mesta efni sem hefur komið fram í stjórnmálum hér á landi í langan tíma, með munninn fyrir neðan nefið, sem bein er í,eldklár, vel menntuð, metnaðargjörn, ákveðinog heillandi. Þátttaka hennar í stjórnmálum er í raun hvalreki fyrir Samfylkinguna.
Loga Einarssyni mistókst að leiða flokk sinn til viðunandi niðurstöðu í kosningunum. Samfylkingin tapaði þingmanni enda gerði flokkurinn röð mistaka í aðdraganda kosninganna, m.a. með galinni skattastefnu sem kjósendur höfnuðu. Logi hefur lagt sitt af mörkum fyrir flokkinn og ætti nú að láta staðar numið sem formaður og rýma fyrir Kristrúnu sem er hinn augljósi arftaki.
Taki Kristrún Frostadóttir fljótlega við formennsku í Samfylkingunni gæti hafist svipað bataferli í flokknum og gerðist hjá Vinstri grænum 2013 þegar flokkurinn var við það að falla út af þingi undir handleiðslu Steingríms J. Sigfússonar en hann vék á síðustu stundu fyrir Katrínu.
Kristrún Frostadóttir getur orðið hin nýja Katrín Jakobsdóttir íslenskra stjórnmála.
- Ólafur Arnarson