Kristján þór setur pressu á bjarna ben

Í liðinni viku birti Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra mjög ítarlega greinargerð um starfsferil sinn og feril í stjórnsýslu og atvinnulífinu. Með því er hann að bregðast við orðrómi um að hann sé svo nátengdur Samherja að hann muni reynast vanhæfur í mikilvægum málum sem hann mun þurfa að fjalla um sem ráðherra sjávarútvegsmála.

 

Reyndar er það svo að öllum alþingismönnum ber að gera ítarlega grein fyrir tengslum sínum og starfsferli í hagsmunaskráningu Alþingis. Flestir þingmenn gera samviskusamlega grein fyrir ferli sínum og tengslum – en þó ekki allir. Upplýsingar um þingmenn eru birtar á vef Alþingis og eru því öllum aðgengilegar.

 

Sú greinargerð sem Kristján Þór sendi öllum fjölmiðlum í liðinni viku er mjög ítarleg og svarar alveg tengslum hans við Samherja og önnur fyrirtæki sem hann hefur unnið fyrir og tengst á liðnum árum. Þar kemur meðal annars fram að Kristján Þór var stjórnarformaður Samherja um árabil en langt er um liðið frá því það var. Þá átti hann einnig sæti í stjórnum fleiri fyrirtækja, lífeyrissjóða, opinberra stofnana, samtaka og fyrirtækja. Dæmi um það eru Samband sveitarfélaga og Landsvirkjun. Hann gerir skilmerkilega grein fyrir þessu öllu sem er honum til sóma.

 

Þegar Kristján Þór hefur gert hreint fyrir sínum dyrum með svo skýrum hætti, er ekki úr vegi að skoða hvernig aðrir ráðherrar gera grein fyrir sínum hagsmunatengslum og ferli í stjórnsýslu og atvinnulífi. Við lauslega athugun á því virðist sem allir sinni þessari upplýsingagjöf gagnvart hagsmunaskráningu Alþingis með eðlilegum hætti – nema einn. Bjarni Benediktsson virðist ekki sjá ástæðu til að geta um ýmis tengsl og fortíð sína í viðskiptalífinu þó hann tíundi samviskusamlega að hann hafi átt sæti í stjórn Hugins, félags ungra Sjálfstæðismanna í Garðabæ og verið formaður knattspyrnudeildar Stjörnunar.

 

Bjarni lætur þess getið á vef Alþingis að hann hafi verið varaformaður Flugráðs 2003 til 2007 en nefnir ekki aðild sína að nokkrum fyrirtækjum eins og Vafningi ehf., N-1 hf. þar sem hann var formaður, Falson & Co., BNT þar sem hann gegndi stöðu formanns, Umtaki, Mætti og fleiri eignarhaldsfyrirtækjum hér á landi og í skattaparadísum. Þá átti hann sæti í stjórn Marels hf. árin 2003 til 2005. Bjarni Benediktsson virðist ekki telja stjórnarsetu sína og þátttöku í öllum þessum fyrirtækjum skipta máli í upplýsingagjöf til Alþingis.

Hann lítur greinilega þannig á að upplýsingar um varaformennsku hans í Flugráði eigi meira erindi við almenning en aðkoma hans að ýmsum fyrirtækjum og eignarhaldsfélögum.

 

Rétt er að minna á að 130 milljarðar króna voru afskrifaðir vegna fyrirtækja sem tengd voru Bjarna Benediktssyni og fjölskyldu hans eftir hrun eins og skilmerkilega er gerð grein fyrir í nýútkominni bók Karls Th. Birgissonar, Hinir ósnertanlegu.

 

Rtá.