Þessar bækur breyttu kristínu helgu

Það var enginn annar en formaður Rithöfundasambands Íslands, Kristín Helga Gunnarsdóttir sem mætti til Sigmundar Ernis í menningarþættinum Bókin sem breytti mér á fimmtudagskvöld og fór þar á kostum í umfjöllun sinni um uppáhaldsbækurnar.

Kristín Helga kom með haug af bókum í þáttinn og sagðist ekki taka það í mál að takmarka sig aðeins við þrjár bækur, eins og form þáttarins gerir ráð fyrir, en meðal bóka sem hún dró upp úr pússi sínu eru Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness sem hún segir eitt höfuðritanna í lífi sínu og hægt að lesa á hvaða tíma sem er. Þá nefndi hún Veröld sem var eftir Stefan Szweig sem margir vilja meina að sé besta endurminningabókl sögunnar, svo snillldarleg sem hún er í að lýsa tíðarandanum á fyrri hluta síðustu aldar. Og svo afhjúpaði hún frumeintökin af Línu langsokk, fyrstu tveimur sögunum sem komu út á íslensku, en þau geymdi hún í öskju og færu helst valdrei með út úr húsi; Lína og móðir hennar Astrid væru klettarnir í lífi sínu og fyrirmyndir í einu og öllu; þegar hún hafi verið ung stúlka og eitthvað hafi bjátað á hefði hún jafnan bara spurt, hvað myndi Lína gera núna? 

Þátturinn, sem hóf göngu sína í síðustu viku með heimsókn Silju Aðalsteinsdóttur, er á dagskrá klukkan 20:30 á fimmtudagskvöldum, en honum er ætlað að vera lifandi og upplýsandi umræðuvettvangur um þær bækur sem hafa haft mest áhrif á lestrarhesta landsins.

Kristín Helga er þjóðkunn af rómuðum skrifum sínum um Fíu Sól og fleiri glettnar persónur fyrir börn á öllum aldri, en eftir hana liggur vel á annar tugur bóka sem hafa notið mikilla vinsælda.

Gestur þáttarins eftir viku er svo Gerður Kristný, skáld og rithöfundur.

Hægt er að nálgast þáttinn á hringbraut.is.