Við litum inn til hennar Kristínar Edwald hæstarréttalögmanns og fagurkera með meiru sem er okkar Martha Stewart. Kristín hefur dálæti af því að setja saman ljúffengar veigar og bera þær fram á fallegan og hrífandi hátt. Henni er margt til lista lagt þegar kemur að bakstri, matreiðslu og drykkjarföngum og allt sem hún gerir er metnaðarfullt og aðlaðandi. Þegar okkur bar að garði var Kristín búin að galdra fram glæsilegan brunch eða dögurð eins og við segjum á góðri íslensku.
„Mér finnst voða gaman að hafa brunch um helgar, geta leikið mér aðeins í eldhúsinu og átt góða stund með fjölskyldu og vinum. Oft er nefnilega auðvelt að ná fólki saman í afslappaðan brunch um helgar. Þá baka ég til dæmis súrdeigsbrauð, býð upp á osta, reyktan lax og gott kjötálegg með. Þeytt smjör er líka ómissandi með brauðinu. Svo er gaman að skera niður litríka ávexti og ber. Einnig hef ég boðið upp á mozzarella og tómata með basilikku og set í litlar krukkur eða falleg box. Stundum hef ég haft kalt pastasalat, til dæmis með baunaspírum, spínati, tómötum, fetaosti og þunnum nautakjötsstrimlum. Piparmyntuostakakan hefur líka slegið í gegn. Ég hef sett hana í litlar krukkur en mér finnst skemmtilegt að bera mat fram í krukkum því það er svo lítil fyrirhöfn en gerir borðið svo huggulegt.
Kristín leggur mikið upp úr því að bjóða fram ljúffenga og fallega framsetta drykki sem gleðja gesti. „Síðan hef ég boðið upp á freyðivín, mangósafa og sódavatn með lime, myntu og jarðarberjum með. Fólk getur drukkið þetta eitt og sér eða blandað að vild. Mangósafi með smá freyðivíni er mjög góður og sumarlegur drykkur. Þessar veitingar virka líka mjög vel ef maður býður fólki heim á virkum dögum eftir vinnu. Mér finnst æðislegt að dúlla mér við framsetninguna á veitingunum á borðinu því oft þarf svo ótrúlega lítið til að gera réttina og borðið extra fallegt,“ segir Kristín með bros á vör og er svo sannarlega höfðingi heim að sækja. Kristín gaf okkur uppskriftina að piparmyntuostakökunni og hennar aðferð við að þeytta smjörið og við mælum með að þið prófið.
Piparmyntuostakaka
6 krukkur
1 pk Remi kex
1 dós Mascarpone ostur
1/3 bolli sykur
2 ½ dl rjómi
½ - 1 msk piparmyntudropar eftir smekk
Örlítill grænn matarlitur
Mynta og súkkulaði til að skreyta með
Brjótið kexið smátt og setjið í botninn á krukkunum. Þeytið saman rjómaost og sykur, bætið rjómanum út í og þeytið áfram þar til blandan er nokkuð þykk. Bætið piparmyntudropum í og smakkið til. Setjið smá matarlit út í ef þið viljið hafa kökuna myntugræna. Sprautið svo blöndunni ofan á kexið í krukkunum og skreytið með súkkulaði og myntulaufum.
Þeytt smjör
Þeytta smjörið slær alltaf í gegn og er fáránlega einfalt að gera. Ég tek mjúkt smjörstykki, brúna helminginn af því í potti þar til gyllt korn myndast, kæli brúnaða smjörið og þeyti svo allt smjörið vel saman.
Myndir Kristín Edwald