Hver stórkanónan á fætur annarri innan Framsóknarflokksins gerir sér nú grein fyrir að það gengur ekki fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þingmann og formann Framsóknarflokksins, að hann starfi áfram eftir að hafa sagt af sér sem forsætisráðherra.
Þetta segir Jóhannes Gunnar Bjarnason, fyrrum oddviti framsóknarmanna á Akureyri og fv. bæjarfulltrúi. Hann var í hópi fyrstu trúnaðarmanna Framsóknarflokksins sem krafðist afsagnar Sigmundar Davíðs í kjölfar afhjúpunar Panamaskjalanna í síðustu viku. Athygli vakti að yfirlýsing núverandi bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins gegn Sigmundi kom fram í kjördæmi Sigmundar Davíðs, Norðausturkjördæmi. Jóhannes Gunnar segist í viðtali við Hringbraut sjá tækifæri í stöðunni til að byggja flokkinn aftur upp eftir að flokkurinn villtist af leið. Algjört skilyrði slíkrar endurreisnar sé að Sigmundur Davíð hætti sem formaður Framsóknarflokksins enda gangi ekki að hann hafi leynt svo örlagaríkum trúnaðarupplýsingum og vísar þar til félagsins í skattaskjólinu á Tortóla.
\"Staðan er orðin þannig að öllum er ljóst að hann verður að hætta. Hann hættir sem ráðherra vegna þess að hann hefur leynt þjóðina gögnum og upplýsingum. Það er ekki síður sárt að hann hefur leynt nánum samstarfsmönnum upplýsingum, leynt upphæðum utan landsteinanna sem maður nær ekki utan um. Það er ekki nóg að æðsti yfirmaður fyrirtækisins Íslands hafi vikið frá þótt það sé stórfrétt. Það að hann hafi vikið frá vegna þessa máls gerir hann líka vanhæfan til að gegna formennsku í stjórnmálaflokki. Sá sem leiðir flokk fyrir kosningar sækist eftir ráðherraembætti. Nýtur Sigmundur Davíðs trausts sem verðandi ráðherra? Nei. Ef flokkurinn ætlar nú að endurheimta trúverðugleika sinn munar um hvern dag sem sandurinn rennur í tímaglasinu. Hann á að segja af sér öllum trúnaðarstörfum innan Framsóknarflokksins, því þá fá þeir sem vilja gefa kost á sér til forystustarfa fyrir nýtt kjörtímabil meiri tíma til undirbúnings.\"
Jóhannes Gunnar nefnir nokkur dæmi um hörðustu stuðningsmenn Sigmundar innan flokksins sem nú hafi gengið af trúnni. Karl Garðarsson þingmaður sé einn þeirra, Frosti Sigurjónsson, Indefencehópurinn og fleiri. Hann segir það hreinlega lífsspursmál fyrir endurreisn Framsóknarflokksins að Sigmundur stígi til hliðar, helst strax í dag. \"Þetta er lífsspursmál. Svo þarf flokkurinn að blása sem allra fyrst til flokksþings þar sem ný flokksforysta verður valin. Sigmundur Davíð hefur engan trúverðugleika lengur en það er enn fullt af góðu fólki í þessum flokki, það vill gleymast.\"
Hefur Jóhannes Gunnar sjálfur íhugað úrsögn úr Framsóknarflokknum vegna hneykslismálsins?
Hann svarar með spurningu: \"Er betra að moka flórinn inni í fjósinu eða standa utan þess og horfa á? Ég get ekki gagnrýnt minn eigin flokk með sama hætti og nú ef ég segi mig úr flokknum. Ég þekki marga sem eru ekki tilbúnir að yfirgefa flokkinn en það myndi hjálpa til við að halda góðu fólki hér áfram um borð ef Sigmundur myndi hætta, segja af sér formennsku í flokknum áður en hann fer út að sóla sig með frúnni.\"
Jóhannes Gunnar segir að mitt í öllum ömurleikanum hafi opnast tækifæri til að fara yfir og bæta stefnu Framsóknarflokksins sem villst hafi verulega af leið. Bæði vegna stefnu foringjans en einnig vegna þess að framsókn hafi sl. þrjú ár verið \"taglhnýtingur íhaldsins\".
\"Já, nú er tækifæri til að endurskoða kúrsinn. Númer eitt þarf að huga að því að sá mikli auður sem verður til í íslensku samfélagi skiptist annars vegar réttlátlega milli fjársveltra ríkisstofnana og hins vegar að hlutskipti þeirra sem eru á lágmarksframfærslu verði bætt. Við þurfum að sækja þá fjármuni til þeirra sem ekki hafa tölu á eigin auðæfum. Opinbera aðila stórvantar meira fé, þar má nefna heilbrigðismál, menntamál og öldrunarþjónustu. Það þarf líka að leiðrétta þá misskiptingu sem felst í því að hluti Íslendinga er með hundruð milljóna í skattaskjólum. Þessir peningar verða að renna í okkar sameiginlegu sjóði að miklum hluta. Hvað er skattheimta annað en rekstur skóla, sjúkrahúsa, gatnakerfis landsins? Allt er þetta meira og minna í salti núna. Hvert á að sækja peninga? Til hins almenna launamanns? Hann er ekki aflögufær. Þess vegna þarf að gera gangskör í því að jafna gæðum og herja á þá sem mest hafa,\" segir Jóhannes Gunnar Bjarnason grunnskólakennari á Akureyri og framsóknarmaður til margra áratuga.
Viðtal: Björn Þorláksson