Gríðarkostnaður vegna krabbameins

Ragnheiður Davíðsdóttir sem fyrir hönd samtakanna Kraftur sem leggur sjúkum fjárhagslegt lið, staðhæfir að nýverið hafi krabbameinssjúk ung kona snúið sér til samtakanna, nýgreind með alvarlegt krabbamein og í ljós hafi komið að sjúkdómurinn hafi kostað hana mörg hundruð þúsund króna úr eigin vasa á skömmum tíma.

\"Hún bar sig vel, í miðri lyfjameðferð.Hún vildi kynna sér Kraft og möguleika félagsins til að fá e.k.styrk til að standa straum af greiðslum fyrir læknis- og lyfjakostnað. Þessi kona greindist fyrir fjórum mánuðum og hafði þegar greitt hátt á þriðja hundrað þúsund króna - eingöngu í lyf og læknismeðferðir,\" skrifar Ragnheiður á facebook.

Hún segist hafa orðið orðlaus. Krabbameinið hafi verið þeirrar gerðar að oft þyrfti að segulóma hana og taka myndir sem sé mjög dýrt) fyrir utan allar læknaheimsóknirnar og blóðprufurnar.

\"Nú um áramótin, þegar við tók nýtt almanaksár, hækkaði allt aftur upp í hæstu hæðir.Unga konan á eiginmann og þrjú börn í ómegð. Hún á enn langt í land í baráttu sinni við krabbameinnið svo kostnaðurinn mun margfaldast. Sjálf segist hún ekki vita hvað hún á að taka til bragðs.\"

Margir hafa deilt færslu Ragnheiðar og hefur pólitísk umræða sprottið af. Heiða B. Heiðars, auglýsingastjóri á Stundinni, lenti í orðaskaki nýverið við Brynjar Níelsson þingmann Sjálfstæðisflokksins eftir að Brynjar hafði hjólað í þau ummæli Birgittu Jónsdóttur að hér væri allt í rúst. Heiða beinir orðum sínum að Brynjari og skrifar á facebook þar sem hún deilir færslu Ragnheiðar:

\"Hvaða rugl er þetta? Brynjar Níelsson, er lífið svona í þessi andskotans fyrirmyndasamfélagi sem þú segir að við búum í? Svo hneykslast þú yfir því að Birgitta Jónsdóttir segi að hér sé allt í molum.  Hér ER ALLT í molum af því að fólk má ekki við því að bíllinn bili, barn þurfi að fara til tannlæknis og alls ekki að verða fyrir svona áföllum. Af hverju sýnir þú ekki smá dug og berst fyrir því að fólk þurfi ekki að borga fyrir lyf og læknismeðferð rétt á meðan það berst fyrir lífi sínu? Þá væri séns að fólk myndi eftir tíma þínum á þingi fyrir að gera eitthvað sem almennilegt gagn væri að.\"

Komið hefur fram í fréttum að kostnaður krabbameinssjúkra geti hlaupið á aðra millljón króna vegna veikinda þeirra hér á landi.