Vetrarfrí er nýafstaðið í skólum landsins þar sem foreldrar voru hvattir til að nýta frídagana með börnum sínum. Ekki er okkur foreldrum þó skikkað frí en hvernig sem á því stendur ákvað ég að skoða hvað það kostar að stunda einhverskonar tómstundir með börnunum. Smá rigning og rok var úti og langaði mig að stunda einhverja hreyfingu með börnunum innandyra. Hér koma niðurstöðurnar:
Badminton. Þið leigið saman völl og spaða á 4.400 krónur í 50 mínútur. Þá er hægt að velja hvort það sé einliða- eða tvíliðaleikur.
Það fer eflaust eftir stofum en fyrir um það bil 2.400 krónur er hægt að spila pool í klukkutíma.
Það er athyglisvert að skoða verðið í keilu, en það er aðeins ein keiluhöll á stór Reykjavíkur svæðinu og því engin samkeppni. Samkvæmt vefsíðu Keiluhallarinnar í Egilshöll kostar 3.290 krónur að fara í keilu í 30 mínútur á meðan það kostar 6.590 krónur að fara í 50 mínútur. Það er hagstæðara að kaupa tvisvar 30 mínútur en 50 mínútur því þú tapar bæði 10 krónum og 10 mínútum á því að kaupa lengri tímann. Þetta reikningsdæmi er fráleitt.
Bogfimi. Þið leigið búnað og aðstöðuna á 1.600 krónur í 30 mínútur og á 2.400 krónur í 60 mínútur, þarna er dæmi sem gengur upp þar sem maðurfær 800 króna afslátt á því að vera lengur.
En ekki eru allir sem rukka fyrir tímann. Hægt er að fara í Bása og leigja 100 golfkúlur fyrir 1.400 krónur. Hægt er að dunda sér við að slá þær eins lengi og maður vill og þið getið verið eins mörg og þið viljið. Þetta hef ég oft gert og lána þau einnig kylfur með ef þarf, þér að kostnaðarlausu.
Hægt er að hoppa og skoppa í trampolíngarðinum Rush fyrir 2.200 krónur.
Skautaleiga og aðgangseyrir er 1.500 krónur og máttu vera eins lengi og þig listir.
Bíóverð er mismunandi eftir kvikmyndahúsum en ég fann almennt miðaverð á um 1.600 krónur.
Jafnvel þótt það var lokað um helgina í Bláfjöllum þá athugaði ég kostnaðinn. Hægt er að velja klukkustundafjölda eða dagspassa. Dagspassi fyrir fullorðinn er 3.950 krónur og ef ég vildi fá lánaðan fullan búnað kostar það mig 5.300 krónur.
Aðgangseyrir í sund er 1.000 krónur og í húsdýragarðinn er 900 krónur.
Það er kostnaðarsamt að fara með heila fjölskyldu að stunda þessar íþróttir en auðvitað kostar ekkert að fara í Heiðmörk og taka göngutúr í fallegu náttúrunni okkar og taka nesti og bolta með, ganga um miðbæ Reykjavíkur og skoða skipin á bryggjunni eða fara á Klambratún og spila blak á völlunum þar ef maður á bolta.
Ég vil helst gera eitthvað sem inniheldur hreyfingu en mér finnst svekkjandi hvað kostnaðurinn fælir mann frá. Ég vona innilega að ég sé að gleyma einhverju sem kostar minna en stuðlar og hvetur börn til að iðka íþróttir því við vitum öll hvað það hefur góð áhrif á börnin okkar að hreyfa sig og að eyða tíma með foreldrum og systkinum sínum er nauðsynlegt á tækniöldinni sem við búum á.
Það má svo ekki gleyma að það eru fullt af söfnum sem hægt er að heimsækja eins og Árbæjarsafnið, þar er ókeypis aðgangur fyrir börn en fullorðnir greiða 1.700 krónur.
Til að skoða þetta svart á hvítu setti ég í töflu hvað það myndi kosta að stunda hverja tómstund fyrir sig fyrir fjölskyldu með tvö börn, 8 ára og tíu ára. Útkoman er svona:
Allar verðupplýsingar fann ég á vefsíðum fyrirtækja og miðaði öll verð við almennan aðgang fyrir einn fullorðinn.