Kosningasvindl hjá ungum sjálfstæðismönnum

 

Lesendur fjölmiðla hafa undanfarna daga ekki farið varhlutaf af miklum átökum sem risið hafa undanfarnar vikur í aðdraganda sambandsþings ungra sjálfstæðismanna á Eskifirði, en ný forysta sambandsins var kjörin í gær. Það er engin nýlund að ungir sjálfstæðismenn takist á og oft hafa gengið klögu- og kærumál milli fylkinga í ungliðahreyfingunni. Kunnugir telja þó að átökin nú séu miklu hatramari en oftast áður.

Formannsefnin voru Ísak Einar Rúnarsson hagfræðingur og Ingvar Smári Birgisson laganemi. Ísak Einar er fulltrúi fylkingar sem hefur mikla tengingu við grasrót flokksins, sér í lagi í Reykjavík, og styður Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Ingvar Smári er aftur á móti tengdari hópi sem studdi Illuga Gunnarsson, en hefur einnig miklar tengingar við ýmsa helstu stuðningsmenn Bjarna Benediktssonar formanns flokksins. Hér má því segja að opinberast hafi átök og togstreita sem kraumar undir niðri í flokknum. Þessu má kannski líkja við kalda stríðið. Höfuðandstæðingar þar Bandaríkin og Sovétríkin áttu aldrei í beinum ófriði en studdu oftar en ekki skæruliðahópa sem börðust gegn meintum andstæðingi víðs vegar í þriðja heiminum.

En allt um það. Vefmiðillinn Vísir birti á dögunum ítrekað neikvæðar fréttir af framboði Ísaks Einars sem snerust einkum um lögheimilisflutninga stuðningsmanna hans í aðdraganda þingsins og partíferð ungra menntskælinga á SUS-þingið þar sem öllum mátti ljóst vera að ótæpilegt magn áfengis var helsta tálbeitan. Fátt nýtt hér á ferð. Það var heldur engin nýlunda að Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, skyldi nær eingöngu heimila fulltrúum Ísaks Einars að fá sæti á þinginu. Stjórn Heimdallar studdi framboð Ísaks Einars leynt og ljóst og valdi stuðningsmenn Ísaks á þingið, en Heimdallur fer með 45% atkvæða á SUS-þingum og ræður því mestu um úrslit.

Stuðningsmenn Ingvars Smára (og forverar þeirra) hafa ráðið SUS frá árinu 2009 þegar Fokker-vél Flugfélags Íslands full af andstæðingum Fanneyjar Birnu Jónsdóttur lenti á Ísafjarðarflugvelli að morgni kjördags. Ef þeir voru ósáttir við val Heimdallar á þingfulltrúum nú gátu þeir óskað eftir að haldinn yrði almennur félagsfundur. Það gerðu þeir hins vegar ekki heldur tók framkvæmdastjórn SUS, með Laufeyju Rún Ketilsdóttur, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara flokksins og alþingismann, í broddi fylkingar, þá ákvörðun að neita öllum fulltrúum Heimdallar um sæti á þinginu á þeirri forsendu að tölvupóstur með nöfnum þingfulltrúa hefði borist á rangt netfang og einnig var fulltrúum fleiri félaga sem studdu Ísak Einar meinuð þátttaka. Þessi málatilbúnaður aðstoðarmanns dómsmálaráðherra var svo langsóttur að meira að segja Bjarni Benediktsson formaður sagði hingað og ekki lengra. Í kjölfarið láku svo ýmsar neikvæðar fréttir í fjölmiðla um framboð Ísaks Einars, en fjölmiðlar fjölluðu þó ekkert um lögheimilisflutninga hins liðsins, þar með talið flutning ellefu Pólverja í eitt hús í nágrannasveitarfélagi Reykjavíkur, þar sem vildi svo til að formaður ungra sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu er með lögheimili ásamt foreldrum sínum, en svo vildi til að Pólverjarnir ellefu voru allir skráðir á SUS-þingið sem stuðningsmenn Ingvars Smára.

Þegar á SUS-þingið kom var alls um 40 stuðningsmönnum Ísaks Einars neitað um kjörbréf. Kjörbréfanefnd tók upp undir hundrað manns í yfirheyrslu og þráspurði með Stasi-aðferðum hvernig hús viðkomandi væri á litinn og þar fram eftir götunum, til að komast að því hvort viðkomandi hefði fært lögheimili sitt gagngert fyrir þingið. Þó er ekkert í lögum SUS sem bannar lögheimilisflutninga af þessu tagi og sérstakt að lögheimilisflutningar stuðningsmanna Ingvars Smára skyldu ekki ógilda kjörbréf þeirra að sama skapi. Pólverjarnir ellefu fengu að kjósa, enda studdu þeir réttan frambjóðanda. Meira að segja voru einhverjir frambjóðendur spurðir hvorn frambjóðandann þeir styddu. Einn kvaðst styðja Ingvar Smára og var þá umsvifalaust veitt kjörbréf. Heimatilbúin regla aðstoðarmanns dómsmálaráðherra og ritara Sjálfstæðisflokksins um lögheimilisflutninga átti auðsjáanlega bara við um stuðningsmenn Ísaks Einars og svo fór að Ingvar Smári hlaut 222 atkvæði gegn 210 atkvæðum Ísaks Einars.

Sá sem þetta ritar hefur unnið sem eftirlitsmaður við framkvæmd kosninga víðs vegar í vanþróuðum ríkjum. Þar er oftar en ekki haft rangt við við framkvæmd kosninga. En kosningasvindlið fer ekki fram með því að skammbyssuhlaupi sé haldið upp að gagnauga kjósanda í kjörklefanum. Svindlið fer fram með því skapa framboðum óeðlilegan aðstöðumun í aðdraganda og við framkvæmd kosninga og hafa rangt við með hvers kyns undirróðri og ofbeldi.

Er forysta ungra sjálfstæðismanna lýðræðissinnuð í reynd? Er ekki rétt að fjölmiðlar spyrji aðstoðarmann dómsmálaráðherra og ritara Sjálfstæðisflokksins einhverra spurninga í þessu sambandi? Þær bera meginábyrgð á þessari atburðarás sem flokkast ekki sem neitt annað en kosningasvindl.

 

rtá