Undirritaður hefur undanfarið þurft að ferðast vinnunnar vegna. Ég er vátryggingamiðlari og er að sækja vörur til útlanda eða aðstoða erlenda aðila að vátryggja sig.
Það er nú þannig að maður í minni stöðu er alltaf að skoða vátryggingar og skilmála en á stundum skoðar ekki það sem stendur honum næst. Svipað og píparinn sem gerir ekki við sírennslið í klósettinu hjá sér eða rafvirkinn sem klárar ekki ljósið inni á baði.
Undirritaður var að aðstoða fyrirtæki í Eistlandi að taka upp sambærilega vöru eins og Tryggja ehf., fyrirtæki mitt er að bjóða, það er leiguvernd. Leiguvernd vátryggir fyrirtæki og einstaklinga sem eru að leigja út húsnæði fyrir vanskilum eða slæmum viðskilum leigjenda. Þessi vara er ný í Baltnesku löngunum eins og á Íslandi.
Nema hvað að í einni ferð til Tallin þá verður farangur eftir eða fer á vitlausan áfangastað.
Þetta var bagalegt þar sem fundir um vátryggingamál fara yfirleitt fram þannig að fundarmenn eru í jakkafötum og með bindi en þar sem farangurinn minn var ekki kominn voru góð ráð dýr. Ég hafði möguleika að mæta í gallabuxum og polo bol sem voru ferðafötin eða koma við í verslun og kaupa tilheyrandi fatnað til að fylgja reglum og passa upp á almennt „protokoll“.
Þar sem ég hef gaman að lestri skilmála þá fór ég í að skoða hvernig ég geti velt þessum vandræðum yfir á vátryggingafélag.
Fyrst kom upp sú spurning í hvaða vátryggingu gæti ég sótt.
Á stundum eru Íslendingar með tvær virkar vátryggyngingar þegar þeir eru á ferðum á erlendri grundu. Flestir kaupa sínar ferðir með kreditkortum sem hafa á að skipa ferðatryggingum og svo er algengt að slíkar vátryggingar séu hluti af heimils-/fjölskyldutryggingum.
Nú er ég í viðskiptaerindum en að hluta til að skemmta mér með félögum. Líklega fellur þó þessi ferð mín undir viðskiptaferð og þá er skilmáli fjölskyldutryggingarinnar ekki virkur. Þetta er þó erfitt að greina og má ætla að sönnun þess að ferðin hafi verið meira eða minna viðskiptaferð falli vátryggingartaka í vil komi til skoðunarskipta.
Ég greiddi ferðina með Gull Master-fyrirtækja-korti frá íslandsbanka og skilmála má sjá hjá Sjóvá. (tek það fram að ég skoðaði þetta líka hjá TM og það er nánast sami skilmáli)
Tjónið sem um ræðir er farangurstöf þar sem ekki er komið í ljós að töskurnar séu týndar heldur er ennþá verið að halda í vonina að þær komi fram.
Í skilmálanum er sérstaklega talað um farangurstjón og í sömu andrá um innkaupatryggingu.
Ég fer allur í startholurnar, líklega má ég kaupa inn fyrir tvöhundruð þúsund ef ég lendi í þessum hremmingum. Ég taldi mig vera í góðum málum með að falla í innkaup, kaupa gallann sem þurfti til að verða mér ekki til skammar á fyrrgreindum fundum. Innkaupatrygging er orð sem getur varla vafist fyrir neinum að um er að ræða að ég sé vátryggður fyrir innkaupum. Líklega sem ég þarf að framkvæma þar sem ég hef ekki aðgang að mínu dóti.
Nei svo er ekki þetta á við að vátryggingin vátryggir allt að tvöhundruð þúsund af varning sem keyptur er á korti viðkomandi sem farangur. Og svo er sama upphæð á farangur sem tekin hefur verið með að heiman. Nú er komin ský, svört ský yfir mig ég hef það á tilfinningunni að þarna hafi skilmálaforkar farið hamförum í skilgreiningum og afvegaleiddum framsetningum. Æ þetta er bara svo vitlaust. Eignaréttur á hlutum er ekki skilgreindur í eðli sínu hvar og hvernig hann var keyptur. Þetta er bara .... ég má ekki segja það. Samkvæmt þessu er vátrygging á farangri allt að 200 þúsund á útleið og allt að 400 þúsund á heimleið. Hvar annarsstaðar en á Íslandi koma svona skilmálar fyrir?
Ég þurfti að lesa lengra. Þar kemur orðið farangurstöf sem er lykillinn í þessu. Ég sé núna að ég hef 24 þúsund krónur til að halla mér að til að græja mig upp svo allt gangi samkvæmt reglum.
Vátryggingar eru til að vátryggja tjón og það er rétt að eftir kaupin á skyrtu, skóm og jakkafötum þá er ég kominn með eign sem fylgir mér líklega fram í tímann en þetta var keypt undir þvinguðum aðstæðum. Auk þess hef ég lítið að gera við mikið af sambærilegum hlutum en það verður líklega að nýta í framtíðinni. Ég hef þá skoðun að 24 þúsund króna vátrygging sé tilgangslaus og engum til framdráttar. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að ferðatryggingar kortafyrirtækjanna séu falskt öryggi enda vátryggingafjárhæðir í engu samræmi við þörfina.
Það er kominn tími til að skera þessar vátryggingar upp og hætta að gefa fólki falskt öryggi.
Sjúkrakostnaðartrygging upp á átta milljónir eins og kortatryggingin mín er með er bara allt of lágt ef ég þyrfti á sjúkrahúsvist að halda. Það er ámælisvert að láta fólk halda að það sé sæmilega vel vátryggt með sínu korti.
Eitt stærsta vátryggingafélag á þessu sviði Cigna Global, er með lægstu mögulega bótafjárhæð í milljón dollurum sem eru hundrað og þrjátíu milljónir. Þarna er himinn og haf á milli. Einhvern veginn treysti ég vátryggingarmönnum hjá Cigna frekar til að átta sig á þörfinni en íslenskum bankamönnum. Svo má ekki gleyma að vátryggingafjárhæðir eru í krónum og þrátt fyrir 50% fall eftir hrun þá hafa þessar vátryggingafjárhæðir ekki hækkað í yfir tíu ár.
Mín skoðun er sú að kortatryggingin er vantrygging og það er ekki fallegur leikur að bjóða ekki upp á betri kosti. Kortafyrirtækin og bankarnir eru leiðandi í þessum efnum og hafa þá skyldu að halda þessum hlutum í lagi. Ég skil líka ekki hvers vegna eftirlitsaðilar gera ekki athugasemdir við þennan leik sem verið er að leika á þessu sviði. Ef einstaklingur ætlar að ferðast þá þarf hann miklu betri vernd en þessi margumtalaða vantrygging.
Ég skora á kortafyrirtækin að hækka vátryggingafjárhæðir svo fólk í góðri trú verið ekki fyrir stórtjóni þrátt fyrir að falla innan skilmála.
Smári Ríkarðsson