Kópavogur er í raun og veru uppseldur, bæjarfélagið á ekki fleiri lönd til að brjóta undir íbúðabyggð og á þar af leiðandi aðeins kost á að þétta byggð með öllum ráðum á næstu árum.
Þetta kemur fram í máli Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra Kópavogs í fasteignaþættinum Afsali á Hringbraut sem frumsýndur var á miðvikudagskvöld og nú er hægt að sjá hér á vef stöðvarinnar, en þar er hann sérlegur gestur þeirra Ingólfs Geirs Gissurarsonar, fasteignasala hjá Valhöll, sem fer yfir stöðuna á markaðnum og Sigmundar Ernis sem stýrir þættinum að vanda.
Í þættinum bendir Ármann á gríðarlega uppbyggingu í bæjarfélaginu á síðustu árum, en fram að hruni hafi fimm ný skólahvefi risið í bænum á aðeins hálfum öðrum áratug, en núna þegar byggingarmagn sé aftur farið að aukast í uppgangi síðustu ára á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land blasi við að bærinn geti aðeins boðið upp á eitt skólahverfi í viðbót, í landi Vatnsenda, en styr standi um nýtingu þess við eigendur og það tefji uppbyggingu.
Ármann segir að Kópavogur hafi notið þess að vera mjög miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og fyrir vikið hafi verslun og þjónusta færst í miklum mæli á svæðið, en fjölgun íbúa sé einnig augljós - og þar hafi þróunin verið svo hröð á allra síðustu árum að nú sjái fyrir endann á byggingarlandi bæjarins sem verði fyrir vikið að skoða alla möguleika á þéttingu byggðar til að svara kalli alls almennings um meira lóðaframboð. Skortur á byggingarlandi muni augljóslega leiða til hækkunar á fasteignaverði í bænum á næstu árum.
Afsal er frumsýnt öll miðvikudagskvöld klukkan 21:30.