Litlar breytingar hafa orðið á áfengisneyslu Íslendinga frá árinu 2007 til ársins 2012. Konur og eldra fólk virðist þó vera að auka ölvunardrykkju á meðan áfengisneysla karla í yngri hópunum virðist sveiflast lítillega eða vera stöðug.
Þetta kemur fram í Talnabrunni Landlæknisembættisins, en þar segir að þegar Íslendingar neyti áfengis virðist langflestir drekka 1–3 sinnum í mánuði. Rannsóknin sem liggur að baki þessum tölum sýnir að fleiri karlar neyta áfengis einu sinni í mánuði eða oftar heldur en konur. Á þetta við um öll árin.
Árið 2007 svöruðu tæplega 59% Íslendinga því til að þeir hefðu drukkið að minnsta kosti eitt glas af áfengum drykk, einu sinni í mánuði eða oftar á síðustu 12 mánuðum (67% karla og tæplega 51% kvenna). Hlutfallið lækkar árið 2009 í tæplega 56% (65% karla og 46% kvenna) sem gæti skýrst af efnahagsástandinu í landinu í kjölfar hrunsins.
Árið 2012 hafði hlutfall þeirra sem höfðu drukkið að minnsta kosti einn áfengan drykk á mánuði hækkað í rétt rúm 56% (64% karla og 48% kvenna), sem er heldur lægra en í könnuninni árið 2007. Athyglisvert er að minni breyting er á áfengisneyslu ungra karla á aldrinum 18–34 ára og karla í elsta aldurshópnum 67–79 ára en á öðrum aldurshópum í kjölfar hrunsins. Áfengisneysla þessara aldurshópa helst nánast óbreytt öll árin en dregur þó lítillega úr tíðni í aldurshópnum 67–79 ára árið 2012.
Heldur færri í aldurshópnum 18–34 ára drekka einu sinni í mánuði eða oftar heldur en í aldurshópunum 35–50 ára og 51–66 ára. Þó má greina mun eftir aldurshópum milli kannana. Í könnuninni 2012 hefur dregið saman með aldurshópunum 18–34 ára og 35–50 ára og munar þar mest um að karlar í eldri hópnum hafa dregið úr þessari áfengisneyslu. Þá er eftirtektarvert að konur í elstu aldurshópunum, 51–66 ára og 67–79 ára,.
Heildarsala áfengis er áætluð tæpir 7,2 lítrar af hreinum vínanda á íbúa (15 ára og eldri) árið 2014. Heildarsalan var nokkru meiri árið 2007, eða 7,5 lítrar af hreinum vínanda, 6,9 lítrar árið 2009 og tæplega 7 lítrar árið 2012.